top of page

Átthagafræðiþema GSnb


Í Grunnskóla Snæfellsbæjar hefur verið unnið eftir námskrá í Átthagafræði frá árinu 2010. Markmið með náminu er að byggja upp virk tengsl við nærsamfélagið og tengja nám nemenda veruleikanum í bæjarfélaginu og auka um leið fjölbreytni í námi.

Dagana 24.-25. september var unnið átthagafræðiþema í 5. -10. bekk. Nemendur unnu verkefni á fjölbreyttan hátt, þar sem áhersla var lögð á heimabyggð, nærsamfélagið og upplifun.

10. bekkur kynnti sér fyrirtæki og störf í Snæfellsbæ. Nemendur fengu fræðslu um starfsstéttir í samfélaginu og í framhaldi völdu þeir sér eina starfsgrein til að kynna sér betur. Þeir tóku viðtöl við einstaklinga sem höfðu menntað sig í starfsgreininni og unnu síðan kynningu á starfinu.

9. bekkur vann með jarðfræði Snæfellsbæjar. Nemendur unnu saman í pörum að merkingum inn á google maps með upplýsingum, myndum og myndböndum. Unnið var úr heimildum sem til eru um valda þætti í jarðfræði Snæfellsbæjar með áherslu á Þjóðgarðinn Snæfellsjökul.

Nemendur 8. bekkjar fengu kynningu á Skógræktarfélagi Ólafsvíkur, Soroptimstaklúbbi Snæfellsness og Lionsklúbbnum Rán. Félagar úr þessum klúbbum komu í skólann og kynntu starfsemi félaganna. Þá fóru nemendur í skoðunarferð í Skógræktina í Ólafsvík og drukku heitt kakó í Gömlu réttinni ásamt því sem gengið var að Þumlinum og Tvífossum fyrir ofan Réttarskóg.

Fróðárundrin voru viðfangsefni nemenda í 7. bekk. Þeir kynntu sér söguna um Fróðárundrin þar sem dularfullir atburðir eiga að hafa átt sér stað og tengdu þá frásögn við umhverfið. Nemendur settu söguna upp í tímaás og unnu í hópum klippimyndir þar sem atburðum er lýst í máli og myndum.

Í 6. bekk unnu nemendur verkefni um Snæfellsjökul þar sem áhersla var lögð á örnefni, jarðfræði og framtíð jökulsins. Umræðan um jökulinn var tengd bókmenntum og listum. Þá máluðu nemendur málverk af jöklinum á striga í anda listamanna. Í framhaldi munu nemendur vinna fréttaþátt um Snæfellsjökul.

Nemendur 5. bekkjar fóru að Svalþúfu og gengu yfir að Malarrifi í stilltu veðri. Nemendum var sögð þjóðsagan af Kolbeini og Kölska sem á að hafa gerst á Svalþúfu og þótti nemendum gaman að.

Við viljum þakka þeim sem á einn eða annan hátt veittu okkur aðstoð á þemadögum fyrir þeirra framlag.

Við lok grunnskólagöngu er markmiðið að námið í átthagafræði hafi skilað nemendum okkar góðri þekkingu á heimabyggð sinni og kennt þeim vinnubrögð sem munu nýtast þeim vel í framtíðinni, hvort sem er í frekara námi eða þátttöku í atvinnulífi.

Margrét Gróa Helgadóttir

​Nýjar fréttir
Eldri fréttir
bottom of page