top of page
IMG_0352.JPG

Markmið náms samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla

 

Í Aðalnámskrá grunnskóla eru skilgreindir sex grunnþættir menntunar;  læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Grunnþættirnir tengjast allir innbyrðis og eru jafnframt háðir hver öðrum og eiga samkvæmt aðalnámskránni að endurspeglast í daglegu skólastarfi. Í Grunnskóla Snæfellsbæjar er leitast við að gera þessum þáttum góð skil í skólastarfinu. Skólinn er því mikilvægur vettvangur til að þroska með nemendum hæfni í anda grunnþáttanna og búa þá undir þátttöku í lýðræðissamfélagi.

Læsi

 

Veturinn 2017-2018 vann læsisteymi skólans að gerð læsisstefnu sem kynnt var  formlega fyrir starfsfólki haustið 2018. Samkvæmt Aðalnámskrá er læsi einn af grunnþáttum menntunar og felur í sér lestur, talað mál , ritun og hlustun. Huga þarf vel að þessum grunnþáttum sem eru undirstaða lestrarfærni. Lokamarkmið læsis er lesskilningur, að einstaklingur njóti þess sem hann les og öðlist færni í því að túlka texta út frá eigin reynslu og geti um leið yfirfært þekkingu sína yfir á aðrar aðstæður. Til að öðlast góða færni í lesskilningi er mikilvægt að einstaklingur hafi góðan málskilning, bakgrunnsþekkingu, ályktunarhæfni og öflugan orðaforða.

Við gerð læsisstefnunnar voru hafðar til hliðsjónar þær kennsluaðferðir, skimanir og próf sem notast er við í skólanum. Þá er unnið eftir nýjum viðmiðum í lestri sem Menntamálastofnun hefur gefið út. Góð lestrarfærni er undirstaða alls náms og því leggur Grunnskóli Snæfellsbæjar áherslu á markvisst lestrarnám.

Lestrarþjálfun er samstarfsverkefni heimilis og skóla. Mikilvægt er að auka þekkingu meðal foreldra og forráðamanna á lestrarnámi og þeirri ábyrgð sem þeir bera á lestrarþjálfun.

Læsisstefna skólans, Lestur er lykill að ævintýrum lífsins... má finna hér.

Sjálfbærni

 

Í Grunnskóla Snæfellsbæjar er unnið með sjálfbærnimenntun sem miðar meðal annars að því að skapa samábyrgt samfélag. Markvisst er unnið að þessari menntun með þátttöku skólans í Grænfánaverkefni Landverndar þar sem áhersla er á sjálfbærni og að taka ábyrga afstöðu í málum sem snerta umhverfið á gagnrýninn og uppbyggilegan hátt. Í skólanum er kennd átthagafræði sem felur í sér fræðslu um grenndarsamfélagið þar sem lykilþættir eru  náttúra, landafræði og saga bæjarfélagsins. Námsgreinin snýst um að nemendur kynnist samfélagi nútímans og þeim möguleikum sem þar búa til framtíðar. Lögð er áhersla á vettvangsferðir, kynningar, upplifun, viðtöl, miðlun, tjáningu og sköpun. Þannig byggir skólinn upp virk tengsl við nærsamfélagið og tengir nám nemenda við bæjarfélagið. 

Námskrá í átthagafræði skólans má finna hér.

Heilbrigði og velferð

 

Grunnskóli Snæfellsbæjar er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi grunnskóli sem hefur það að markmiði að vinna markvisst að heilsueflingu. Lögð er áhersla á að skapa öruggt skólaumhverfi sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu og vellíðan allra sem starfa í skólanum.

Sjá heimasíðu heilsueflandi grunnskóli

Skólinn er þátttakandi í Olweusaráætlun gegn einelti og andfélagslegri hegðun þar sem lögð er áhersla á að einstaklingurinn fái að njóta sín á eigin forsendum og að öllum líði vel.

Eineltisáætlun skólans má finna hér.

Skólahjúkrunarfræðingur sér um reglubundnar skoðanir í árgöngum skólans og ýmis konar fræðslu sem stuðlar að heilbrigði og velferð einstaklingsins.

Grunnskóli Snæfellsbæjar tekur þátt í verkefninu Skólar á grænni grein(Eco –Schools) sem byggir á sjálfbærni og umhverfisvernd. Verkefnið byggir á lýðræðismenntun og getu til aðgerða. Allar starfstöðvar skólans hafa unnið markvisst að verkefninu og hlotið þá viðurkenningu að mega flagga Grænfánanum.

Grænfáninn í GSnb má finna hér.

Í Grunnskóla Snæfellsbæjar vinnum við saman að því að skapa jákvæðan skólabrag sem byggir á virðingu fyrir öllum einstaklingum, góðum samskiptum og það að vera meðvitaður um gildi sitt í samfélaginu ásamt því að axla ábyrgð á eigin hlutverki.

Lýðræði og mannréttindi

 

Lýðræðislegir starfshættir skólans birtast í aðkomu nemenda og starfsmanna í að móta skólastarfið. Þá starfa við skólann ýmsar nefndir og ráð sem geta haft áhrif á skólastarfið á ýmsan hátt. Skólaþing var haldið 2019 með þátttöku nemenda, starfsfólks, foreldra og einstaklinga úr skólasamfélaginu, ásamt fulltrúa bæjarstjórnar en þar var mótuð framtíðarsýn og einkunnarorð skólans. Þá gefst nemendum reglulega kostur á að koma skoðunum sínum á framfæri þar sem ígrunduð eru sjónarmið og tillögur nemenda til að hafa áhrif á mótun starfshátta skólans. Þá eiga nemendur fulltrúa í skólaráði.

Jafnrétti

 

Jafnréttisáætlun Grunnskóla Snæfellsbæjar byggir á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Stefna Grunnskóla Snæfellsbæjar er að gætt sé jafnréttis meðal starfsmanna og nemenda. Hver einstaklingur sé metinn á eigin forsendum án tillits til kyns, aldurs, fötlunar, kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, efnahags, trúarbragða, þjóðernis, skoðana, menningarlegs bakgrunns og stöðu að öðru leyti.

Samskipti einstaklinga eiga að grundvallast á gagnkvæmri virðingu, kurteisi og tillitssemi, sem er forsenda þess að hverjum og einum líði sem best. Gagnkvæmt traust og jákvæð og uppbyggileg samskipti móta framar öðru góðan starfsanda.

Skólastarf í anda jafnréttis tekur mið af mismunandi hæfileikum fólks. Því er haft að leiðarljósi í skólastarfi Grunnskóla Snæfellsbæjar að tækifæri nemenda og starfsfólks byggi fyrst og fremst á hæfileikum og færni.

Jafnréttisáætlun skólans má finna hér.

Sköpun

 

Í sköpun felst að gera eitthvað nýtt eða það sem er öðruvísi, móta viðfangsefnið og geta miðlað því. Sköpun er að uppgötva, njóta, vekja áhuga, virkja ímyndunaraflið og leita að nýjum möguleikum. Hún stuðlar að ígrundun, persónulegu námi og frumkvæði nemandans þar sem áhersla er á að fara út fyrir hið þekkta og þannig auka þekkingu sína og leikni. Sköpunarferlið er því ekki síður mikilvægt en afurðin þar sem sköpunarkraftur og innsæi spila lykilhlutverk.

Til að stuðla að auknum möguleikum til nýsköpunar hefur skólinn komið á fót snillismiðju fyrir nemendur 1. - 10. bekkjar. Þar er boðið upp á óhefðbundið nám þar sem reynir á áskoranir, leikni og hæfni, frumkvæði og gagnrýna hugsun einstaklingsins.

Í skólanum er nemendum boðið upp á textíl, heimilisfræði, smíðar og myndmennt á öllum aldursstigum. Tónmennt er kennd í 1.-7. bekk. Á unglingastigi er unnið í þemu ákveðnar vikur á skólaárinu þar sem námsgreinar eru samþættar og nemendur hafa val um úrvinnslu verkefna og skipuleggja sjálfir leiðir að markmiðum.

bottom of page