top of page
IMG_1631.JPG

Saga Grunnskóla Snæfellsbæjar

Grunnskóli Snæfellsbæjar var stofnaður árið 2004 þegar Grunnskólinn á Hellissandi og Grunnskólinn í Ólafsvík voru sameinaðir. Árið 2005 bættist Lýsuhólsskóli við sem starfstöð skólans þegar skólinn var lagður niður sem sjálfstæð stofnun.  Frá þeim tíma hafa allir grunnskólar Snæfellsbæjar starfað undir sama merki. Starfstöðvar skólans eru þrjár; Hellissandur 1. - 4. bekkur, Ólafsvík 5. - 10. bekkur og Lýsuhólsskóli 1. - 10. bekkur en þar er einnig rekin leikskóladeild.

Grunnskóli Snæfellsbæjar er umhverfisvænn skóli, en allar starfstöðvar skólans hafa hlotið umhverfisvottun Grænfánans sem er tákn um árangursríka fræðslu í umhverfismálum og markvissa umhverfisstefnu.

Átthagafræði er ein af meginstoðum skólans þar sem nemendur í 1. -10. bekk læra að þekkja nærumhverfi sitt, sögu, náttúru og staðhætti og geri sér líka grein fyrir möguleikum þar til framtíðar.

Verkefnið var fyrst unnið sem þróunarverkefni árið 2007 en í kjölfarið var unnið markvisst á öllum starfstöðvum við að festa átthaganám í sessi í skólanum og hefur sérstök námskrá verið í gildi frá árinu 2009 sem var endurskoðuð vorið 2019. Námið í átthagafræði gefur möguleika á uppbroti hefðbundins náms með sérstaka áherslu á upplifun sem lykilþátt í náminu.

Grunnskóli Snæfellsbæjar er Olweusarskóli. Unnið hefur verið samkvæmt eineltisáætlun Olweusar frá stofnun skólans. Markmið áætlunarinnar er að vinna gegn einelti og andfélagslegri hegðun og skapa skólaumhverfi þar sem öllum líður vel.

Haustið 2018 var ákveðið að prófa nýtt kennsluskipulag í íslensku í 3. og 6. bekk þar sem áhersla var lögð á fimm þætti þ.e. sjálfstæðan lestur, félagalestur, hlustun, orðavinnu og ritun. Kennsluskipulagið nefnist fimman (The Daily 5) sem reyndist það vel að ákveðið var að innleiða kennslufyrirkomulagið í 1.-7. bekk haustið 2019.

Á unglingastigi er þemavinna unnin í lotum 1-3 vikur í senn með áherslu á samþættingu námsgreina. Viðfangsefnin eru fjölbreytt og lögð er áhersla á skapandi og lausnamiðað nám þar sem sjálfstæði og ábyrgð er höfð að leiðarljósi. Nemendum gefst tækifæri á að vinna í hópum og þvert á árganga.

Síðustu ár hefur nemendafjöldi Grunnskóla Snæfellsbæjar verið um 211.


Einkunnarorð skólans eru: 


Sjálfstæði – Metnaður – Samkennd

bottom of page