top of page
IMG_0449.JPG

Áætlanir um:

Móttöku nýrra nemenda

Markmiðið er að tekið sé á móti nýjum nemendum Grunnskóla Snæfellsbæjar þannig að fyrstu kynni þeirra af skólanum veiti þeim vellíðan og öryggi.

 

Skólastjórnendur bera ábyrgð á innritun og móttöku nýrra nemenda.

 

Móttaka nemenda sem eru að hefja skólagöngu í 1. bekk

Unnið er markvisst eftir áætlun verkefnisins „Brúum bilið milli leik- og grunnskóla“ á síðasta ári nemenda í leikskóla. Að vori er haldinn upplýsingafundur með starfsmönnum leikskóla og grunnskóla. Í ágúst er haldinn fundur með foreldrum þar sem skólinn og skólastarfið er kynnt auk þess sem fjallað er um hlutverk foreldra í að skapa jákvæð samskipti, bekkjaranda og vináttu og að vinna gegn einelti. Foreldrar fá góð ráð varðandi uppeldi og til að efla skólafærni barna sinna.

 

Nýir nemendur

Nemendur sem koma nýir í skólann að hausti, eða eftir að skóli er hafinn, koma ásamt foreldrum eða forráðamönnum í skólann og hitta skólastjórnanda og umsjónarkennara á fundi. Nýir nemendur sem byrja í skólanum að hausti og foreldrar/forráðamenn þeirra fá kynningu á skólastarfinu og húsnæðinu á sérstökum fundi áður en skóli hefst. Þeir hefja síðan nám næsta skóladag.

 

Upplýsingagjöf og upplýsingaöflun:

Formlegt viðtal fer fram á þeirri starfsstöð sem nemandi mun sækja.

 • Þegar viðtalið fer fram er æskilegt að skólastjórnandi og umsjónarkennari sitji fundinn. Tilgangur fundarins er að fá upplýsingar um bakgrunn nemandans og foreldra.

 • Næsta skref er að fara í kynnisferð með barni og foreldrum um skólann og allt það húsnæði sem notað er við kennslu. Kynna þarf bekkjarstofu og sérgreinastofur, hvar inngangur og fatahengi skólans eru, snyrtingar og íþróttahús. 

 • Nemandinn þarf að fá stundaskrá, innkaupalista og upplýsingar um nesti og hádegismat.

 • Forráðamaður fær upplýsingar um hvaða kennslubækur skólinn útvegar og hvað nemandinn þarf að hafa með sér í skólann, t.d. skólatösku, pennaveski, nemendabækur, íþróttaföt og sundföt. 

 • Afhenda skal forráðamönnum starfsáætlun skólans, ásamt upplýsingum um útivistartíma, hvernig eigi að tilkynna forföll og biðja um frí. Einnig nauðsynleg símanúmer, netföng og veffang skólans.

 • Foreldrar og forráðamenn þurfa upplýsingar um hvert þeir geta leitað ef nemanda líður illa í skólanum og ef óánægja kemur upp.

 • Veita skal upplýsingar um tómstundir og þá íþróttaiðkun sem í boði er fyrir nemandann og  hvar sú starfsemi fer fram.

 • Veita skal upplýsingar um mötuneyti, lengda viðveru og verðskrá fyrir þá þjónustu.

 • Kynna skal fyrirkomulag á lengdri viðveru, fyrir þeim sem við á. 

Upplýsingar fyrir skólann um bakgrunn nemanda og aðstæður foreldra (kemur fram á skráningareyðublaði skólans).

 

Fá upplýsingar um:

 • fjölskyldu nemandans.

 • greiningar og námslega stöðu nemanda.

 • áhugamál og skapgerð nemandans.

 • trúarlegan bakgrunn nemandans og trúarhefðir.

 • þjónustuþörf vegna fötlunar eða veikinda.

 • Fá skriflegt leyfi foreldra til að birta myndir af nemendanum í miðlum skólans.

 

Fyrstu skref skólagöngunnar

Áður en hin hefðbundna skólaganga hefst, er mikilvægt að umsjónarkennari undirbúi bekkinn sem nemandinn mun tilheyra og kynni komu hans öllu starfsfólki skólans.

Umsjónarkennari sér til þess að fyrstu daga nemandans í skólanum sé honum fenginn móttökustjóri úr hópi samnemenda. Móttökustjóra er ætlað að veita nýja nemandanum stuðning fyrstu vikurnar.

Mikilvægt er að kynna nemanda rútuferðir, íþróttahús og sundlaug og alla þá íþróttaaðstöðu sem tilheyrir námi hans.

Þegar nemandinn hefur verið u.þ.b. vikutíma í skólanum á umsjónarkennari samtal við hann.

Á fyrsta fundi lausnaleitarteymis, eftir að nemandinn hefur bæst í hópinn, er farið yfir hans mál.

 

Móttökuáætlun fyrir nýja Íslendinga, af erlendum uppruna

Áður en til innritunar kemur verður dvalarleyfi og vottorð um heilbrigðisskoðun að liggja fyrir. Æskilegt er að fá bólusetningarvottorð og einhverjar upplýsingar um fyrri skólagöngu.

Hér fyrir neðan eru punktar sem vert er að kynna sér þegar nýr Íslendingur flyst til Snæfellsbæjar og ætlar að hefja nám við grunnskólann.

 

Upplýsingagjöf og upplýsingaöflun:

Formlegt viðtal fer fram á þeirri starfstöð sem nemandi mun sækja sitt fyrsta skólaár.

 • Þegar viðtalið fer fram er æskilegt að skólastjóri, umsjónarkennari, sérkennari, deildarstjóri og túlkur séu viðstaddir, sé þess þörf, svo þeir kynnist bakgrunni nemandans og foreldrum sem fyrst.

 • Næsta skref er að fara í kynnisferð með barni, foreldrum og túlki um skólann og allt það húsnæði sem notað er við kennslu. Kynna þarf bekkjarstofu og sérgreinastofur, hvar inngangur og fatahengi  skólans eru, snyrtingar og íþróttahús.

 • Foreldrar fá í hendur Upplýsingabækling fyrir erlenda foreldra grunnskólabarna og er hann að finna á heimasíðu fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur.

 • Nemandinn þarf að fá stundaskrá, innkaupalista og upplýsingar um nesti og hádegismat.

 • Forráðamaður fær upplýsingar um hvaða kennslubækur skólinn útvegar og hvað nemandinn þarf að hafa með sér í skólann, t.d. skólatösku, pennaveski, nemendabækur, íþróttaföt og sundföt. 

 • Afhenda skal forráðamönnum starfsáætlun skólans, ásamt útivistartíma, hvernig eigi að tilkynna forföll og biðja um frí og nauðsynleg símanúmer, netföng og veffang skólans.

 • Upplýsingar þessar þurfa að vera á móðurmáli foreldra og barna og vera aðgengilegar á sameiginlegu drifi svo auðvelt sé fyrir starfsfólk skólans að nálgast efnið. Tímarit frá Alþjóðahúsi getur einnig komið að gagni.

 • Foreldrar og forráðamenn þurfa upplýsingar um hvert þeir geti leitað ef nemanda líður illa í skólanum og ef óánægja kemur upp.

 • Veita skal upplýsingar um tómstundir og  þá íþróttaiðkun sem í boði er fyrir nemandann og  hvar sú starfsemi fer fram.

 • Veita skal upplýsingar um mötuneyti, lengda viðveru og verðskrá fyrir þá þjónustu.

 • Kynna skal fyrirkomulag á lengdri viðveru, fyrir þeim sem við á. 

 

 

Upplýsingar fyrir skólann um bakgrunn nemanda og aðstæður foreldra:

Fá upplýsingar um:

 • fjölskyldu nemandans.

 • áhugamál og skapgerð nemandans.

 • trúarlegan bakgrunn nemandans og trúarhefðir.

 • þjónustuþörf vegna fötlunar eða veikinda.


Fá skriflegt leyfi foreldra til að birta myndir af nemendum í miðlum skólans.

 

Fyrstu skref skólagöngunnar

 • Áður en hin hefðbundna skólaganga hefst er mikilvægt að umsjónarkennari undirbúi bekkinn sem nemandinn mun tilheyra og kynni komu hans öllu starfsfólki skólans.

 • Kynna þarf nafn, móðurmál og upprunamenningu nemandans og hafa ber í huga að fyrstu kynni gleymast seint.

 • Við upphaf skólagöngu er mikilvægt að barn komi í skólann ásamt foreldri hluta úr degi barninu til stuðnings. Ferli þetta getur tekið nokkra daga, allt fer þetta eftir því hvernig barnið aðlagast.

 • Mikilvægt er að kynna fyrir nemanda rútuferðir, íþróttahús og sundlaug og alla þá aðstöðu sem til íþróttaiðkunar er. Hafa ber í huga að margir erlendir nemendur eru að jafnaði ekki syndir á okkar mælikvarða og sumir blygðast sín fyrir að afklæða sig innan um aðra.

 • Til að vel takist til við íslenskunám nýrra Íslendinga er áríðandi að gerð verði einstaklingsnámskrá og að undirbúin sé ferilmappa með unnum verkefnum nemandans.

 

Upplýsingar um menningaráfall og hvaða þýðingu það hefur fyrir nemandann

Nefna þarf við foreldra nemanda, sérstaklega þá sem koma frá ólíkum menningarheimum, að komið geti upp sú staða að barn fái menningaráfall.

Margt er framandi í íslenskum skólum og tekur það alltaf tíma að ná tökum á nýju tungumáli og læsi á nýja menningu. Rétt er að árétta að nemandinn þarf stuðning og aðhald foreldra fyrstu árin og mun skólinn leggja sitt af mörkum til þess að koma á móts við hann.

Leggja ber áherslu á jákvæð og skýr skilaboð, uppörvun, stuðning, þátttöku í félagslífi og gott samstarf foreldra og skóla til að stuðla að árangursríkri aðlögun.

Foreldrar geta stutt við nám barna sinna þó svo þeir hafi ekki vald á íslensku og eru til þess ýmsar leiðir, m.a. að nýta íslenska miðla.

Mikilvægt er að hvetja erlent foreldri til þess að viðhalda og þróa móðurmál nemandans. Íslenskt foreldri eða forráðamann skal hvetja til að tala íslensku við barnið og styðja það við að ná tökum á málinu sem fyrst. Nokkrir móðurmálshópar eru starfræktir í Alþjóðahúsi.

bottom of page