top of page
IMG_2758.jpg

Sérkennsla

 

Sér- og stuðningskennsla er stuðningur við nemanda sem þarfnast tímabundinnar aðstoðar eða samfellds stuðnings um lengri tíma, jafnvel alla skólagönguna.  Leitast er við að styrkja sjálfsmynd nemandans með því að leggja áherslu á sterkar hliðar hvers og eins en jafnframt efla þær veiku á jákvæðan hátt.

Sér- og stuðningskennsla byggist á greiningu sem unnin er af sérkennara eða öðrum sérfræðingi, mati umsjónarkennara eða fagkennara og upplýsingum frá foreldrum.  Kennslan fer ýmist fram innan eða utan bekkjardeilda, í einstaklingskennslu eða fámennum hópum.  Hópkennslan er ekki bundin við bekk eða árgang, heldur geta nemendur með sambærileg viðfangsefni unnið saman í námsveri.

Verkefnastjóri stoðþjónustu/sérkennsla

 

Hlutverk verkefnastjóra snýr að því að halda utan um ýmsar skimanir og greiningar sem gerðar eru á nemendum og snúa aðallega að lestrarfærni nemenda.  Einnig sér hann um utanumhald vegna þeirra nemenda sem fá stuðning hjá þroskaþjálfa, sérkennara og kennara sem sér um íslensku sem annað mál. Hann hefur ákveðna yfirsýn yfir þá nemendur sem fá þjónustu frá FSSF sbr. hjá talmeinafræðingi, námsráðgjafa og/eða þroskaþjálfa.  


Verkefnastjóri situr ýmsa fundi í tengslum við stoðþjónustu skólans svo sem teymisfundi sem eru í kringum nemendur, skilafundi sérfræðinga og lausnaleitarfundi. Hann sinnir jafnframt ráðgjöf og stuðningi við kennara og foreldra þegar leitað er til hans.  


Sérkennari sinnir þjálfun og kennslu nemenda sem þurfa að fá stuðning, fyrst og fremst vegna lestrarerfiðleika.  Hann vinnur í flestum tilfellum í sex vikna lotum með nemendahópa.  Á yngri stigum vinnur hann út frá snemmtækri íhlutun og eftirfylgd vegna niðurstaðna lesfimiprófa. Stuðningurinn þar snýr að markvissri hljóðkerfisvinnu, stafaþekkingu og lesfimi. Á miðstigi snýr stuðningurinn fyrst og fremst að lesfimi, lesskilningi og málfræðiþáttum íslenskunnar. Niðurstöðum lesfimiprófa er fylgt eftir og reynt að koma til móts við flesta nemendur. Á unglingastigi snýr sérkennslan fyrst og fremst að því að styðja við og aðstoða kennarateymin ef þau óska eftir ráðgjöf. 

bottom of page