IMG_0466.JPG

Eineltisáætlun

 

Olweusarteymi GSnb 2021 - 2022

Ása Gunnur Sigurðardóttir, Tinna Magnúsdóttir, Kristín Þórðardóttir, Sóley Jónsdóttir, Margrét Sif Sævarsdóttir og Maríanna Sigurbjargardóttir.

 

Grunnskóli Snæfellsbæjar vinnur samkvæmt eineltisáætlun Olweusar gegn einelti og andfélagslegri hegðun. Markmið áætlunarinnar er að skapa skólaumhverfi þar sem einelti fær ekki þrifist. Áætlunin byggir á fáum meginreglum sem sýnt hefur verið fram á með vísindalegum rannsóknum, að skila árangri í baráttunni gegn einelti og andfélagslegri hegðun.

 

Jákvæður skólabragur og samskipti

 

Í skólastarfinu er lögð áhersla á að skapa andrúmsloft sem einkennist af jákvæðni, hlýju, alúð og áhuga hinna fullorðnu en jafnframt ákveðnum römmum vegna óviðunandi atferlis. Til að tryggja þetta eru starfsmenn skólans á fundum einu sinni í mánuði, þar sem fer fram fræðsla og upplýsingum um stöðu og ferli mála er komið á framfæri.

 

Nemendur sitja bekkjarfundi þar sem málefni bekkjarins eru rædd, að lágmarki tvisvar í mánuði. Forráðamenn eru boðaðir á fundi með Olweusarteymi einu sinni á önn til að ræða stöðu bekkjarins, auk þess eru niðurstöður eineltiskönnunnarinnar sem lögð er fyrir 4.-10. bekk árlega, kynntar á opnum fundi.

 

Skilgreining á einelti

 

Talið er að einstaklingur sé lagður í einelti af hann/hún verður fyrir endurteknum neikvæðum verknaði eins eða fleiri einstaklinga fyir ákveðið tímabil (Olweus 1986,1992). Það er neikvæður og/eða ofbeldiskenndur verknaður ef einhver veldur öðrum viljandi tjóni eða óþægindum – með líkamlegri snertingu, í orði eða á annan hátt. Við tölum ekki um einelti nema þessu til viðbótar sé um að ræða aflsmun. Þegar sá sem verður fyrir þessum neikvæða verknaði á erfitt með að verja sig og er harla varnarlaus gagnvart þeim (einum eða fleiri) sem angra hann.

 

Þrennt einkennir eineltishugtakið samkvæmt ofangreindri skilgreiningu:

 

1. Árásarhneigt (ýgt-) eða illa meint atferli

2. Um er að ræða endurtekningu sem stendur yfir í ákveðinn tíma

3. Ójafnvægi afls og valda í samskiptum.

Starf með nemendum til að stuðla að jákvæðum skólabrag

Nemendur hafa aðgang að öllu starfsfólki skólans og geta tilkynnt um það sem þeim þykir ábótavant. 

 

Haldin er Olweusar-vika í byrjun skólaárs, þar sem umsjónarkennari nýtir eina kennslustund á dag til þess að ræða hugtakið einelti, fjalla um jákvæð samskipti í skólastarfinu, halda bekkjarfund og gera

bekkjarreglur. Eineltishringurinn kynntur og hengdur upp í öllum stofum. Nemendur upplýstir um það hvernig þeir geti stuðlað að jákvæðum skólabrag og góðum bekkjaranda. Vinabekkir kynntir og farið í heimsókn.

Önnur Olweusar-vikan er í október þar sem umsjónarkennari nýtir eina kennslustund á dag, til að ræða jákvæð samskipti, hvort heldur sem er á netinu eða í daglegum samskiptum. Vikan endar á vinabekkjarheimsókn.

Þriðja Olweusar-vikan er í febrúar þar sem umsjónarkennari nýtir eina kennslustund á dag, til að stýra hópverkefnum um sem tengjast fjölmenningu og fordómum. Vikan endar á vinabekkjaheimsókn.

 

Reglulegir bekkjarfundir í hverjum bekk. Þar fá nemendur tækifæri til að segja frá líðan sinni, samskiptum við aðra og hvernig þeir upplifa skólabraginn. Hlutverkaleikir, klípusögur og verkefni tengd bættri líðan unnin. Áhersla er lögð á samábyrgð allra.

Eineltiskönnun í nóvember ár hvert. Niðurstöður kynntar nemendum og þær ræddar á bekkjarfundum.

 

Vinna með starfsfólks til að stuðla að jákvæðum skólabrag

Á fyrstu starfsdögum skólans fá nýliðar í starfsmannahópnum námskeið, þar sem farið er yfir helstu áhersluþætti í vinnu með jákvæð samskipti og góðan starfsanda. Útskýrt hvernig greina má einelti og hvernig skal taka á því. Áhersla er lögð á að allir starfsmenn bera ábyrgð á því að skapa jákvæðan

skólabrag, m.a með því að skrá í Olweusarbók ef eitthvað er athugavert í samskiptum nemenda, hrósa fyrir jákvæð samskipti og koma skilaboðum til annarra starfsmanna. Allir nýjir starfsmenn fá eintak af handbókinni: „Olweusaráætlunin gegn einelti og andfélagslegu atferli“, og eiga þeir að kynna sér innihald hennar.

Fundir eru mánaðarlega með öllu starfsfólki skólans, þar sem farið er yfir starfsreglur og verklag í vinnu með jákvæð samskipti. Allt starfsfólk skólans ásamt starfsfólki í íþróttamannvirkja er virkt og upplýst um skyldur sínar, í ferli mála, gagnvart nemendum og öðru starfsfólki skólans. Upplýsingar

veittar um stöðu einstakra mála.

Fulltrúar eineltisteymis eru á öllum deildarfundum. Þar er farið yfir mál sem ekki mega bíða mánaðarfunda.

Jákvæð samskipti milli heimilis og skóla.

Hvernig má bæta/auka samskipti milli forráðamanna innbyrðis og milli skóla og forrráðamanna?

• Öflugt bekkjarstarf í samstarfi forráðamanna, þar sem áhersla er lögð á jákvæðan bekkjaranda og góð samskipti, t.d þurfa að vera skýrar reglur um bekkjarafmæli og bekkjarkvöld. Mikilvægt er að orráðamenn innan bekkjarins þekkist.

• Vera jákvæður gagnvart skólanum og öðrum nemendum í skólanum.

• Taka virkan þátt í skólastarfinu, m.a með því að mæta á fundi og aðra viðburði.

• Kynna sér hverjir eru í eineltisteymi Grunnskóla Snæfellsbæjar, t.d á heimasíðu skólans.

• Kynningarfundir fyrir foreldra sex ára barna haldnir á hverju hausti og þeim afhent foreldrahandbók Olweusar.

• Kynna sér hvenær umsjónarkennarar hafa viðtalstíma. Einnig geta forráðamenn skilið eftir skilaboð hjá skólaritara og haft verður samband við þá. Netföng kennara eru jafnframt aðgengileg á heimasíðu skólans og Mentor.

• Haldnir fundir fyrir hvern bekk að hausti þar sem helstu áherslur ársins eru kynntar. Fundirnir eru með bekkjarfundaformi þannig að forráðamenn kynnast því hvernig þeir fara fram.

• Í febrúar/mars eru niðurstöður eineltiskönnunar, sem nemendur 4.-10. bekkjar taka árlega í nóvember/desember, kynntar fyrir forráðamönnum. Hvað geta forráðamenn gert til að fyrirbyggja einelti?

• Kynna sér eineltisáætlunina og áætlunina um jákvæð samskipti í Grunnskóla Snæfellsbæjar.

• Stofna vinahópa meðal barnanna.

• Fræða og ræða við börnin. Fylgjast með samskiptum, spyrja og hlusta.

• Vera virk í bekkjarstarfi.

• Ræða um umburðarlyndi við börnin.

• Nota Mentor, tölvupóst og heimasíðu skóla til samskipta og upplýsingaöflunar.

• Vera í góðu sambandi við kennara og starfsmenn.

• Afneitun hjálpar engum : “Mitt barn gerir ekki svona.”

• Láta skóla strax vita ef að þeir fá upplýsingar sem gætu bent til eineltis.

Hvað geta forráðamenn gert ef einelti kemur upp?

• Forráðamenn tilkynni strax um eineltið til kennara/eineltisteymis.

• Ræða við barnið: Er barnið þolandi eða gerandi?

• Kenna barninu að taka afstöðu gegn einelti. Mikilvægt að forráðamenn átti sig á stöðunni.

• Forráðamenn hafa samband sín á milli.

• Eftirfylgni.

• Ræða við barnið, þó það sé ekki beinn þátttakandi.

• Mikilvægt að börnin finni að það sé eitthvað gert í málinu og þeim trúað.

Endurskoðað  í ágúst 2016