
Námsmat skólans
Í Aðalnámskrá grunnskóla segir að megintilgangur námsmats sé að veita leiðbeinandi upplýsingar um námið og hvernig markmiðum þess verður náð. Með námsmati er fylgst með námslegri stöðu nemenda og hvernig þeim tekst að ná almennum hæfniviðmiðum Aðalnámskrár. Þeir hvattir til að leggja sig fram og metið hverjir þurfa á aðstoð að halda.
Í Grunnskóla Snæfellsbæjar er leitast við að hafa fjölbreyttar leiðir í námsmati. Mikilvægt er að hver einstaklingur fái að njóta sín sem best, því þarf námsmat að taka á sem flestum þáttum skólastarfsins. Í 1.-7. bekk er gefið í tölustöfum en í 8.-10. bekk er námsmatið í bókstöfunum A-B-C-D og síðan er fyllt út í hæfnikort nemandans. Námsmatið birtist jafnóðum á Mentor.
Samtalsdagar eru tvisvar á skólaárinu þar sem framvinda námsins er rædd og þau markmið sem nemendur setja sér. Gefið er frammistöðumat þar sem lykilhæfni nemenda er metin í tengslum við samtalsdagana. Að vori fá nemendur vitnisburðablöð um námsárangur vetrarins.
Mat á lykilhæfni má finna hér.
Lesfimipróf MMS
Lesferill er staðlað matstæki Menntamálastofnunar sem metur grunnþætti læsis. Prófið veitir upplýsingar um lestrarfærni nemenda og getur gefið vísbendingar um lestrarerfiðleika.
Lesferill skiptist í eftirfarandi þætti:
Lesskimun fyrir 1. bekk er lögð fyrir í október. Skimunin gefur vísbendingar um styrkleika og veikleika varðandi hljóðkerfisvitund, bókstafaþekkingu, umskráningu og málskilning nemenda.
Lesfimi eru raddlestrarpróf fyrir 1.-10. bekk sem prófa hraða og nákvæmnislestur. Prófin eru lögð fyrir þrisvar sinnum á skólaári, í september, janúar og maí. Í viðmiðum Menntamálastofnunar er gert ráð fyrir því að ákveðinn fjöldi orða sé lesinn á mínútu í hverjum árgangi. Viðmiðin miðast við að nemandi hafi náð ákveðinni hæfni í lestri þ.e. hraða og nákvæmni að vori.
Orðarún
Orðarún er staðlað lesskilningspróf fyrir 3. - 9. bekk. Prófið kannar hversu vel nemendur skilja meginefni texta og hugtaka, átta sig á staðreyndum og draga ályktanir. Fyrri hluti prófsins er lagður fyrir í mars og seinni hluti í nóvember.
Læsisstefna skólans, Lestur er lykill að ævintýrum lífsins... má finna hér.
Samræmd könnunarpróf
Menntamálastofnun leggur fyrir samræmd könnunarpróf í 4. og 7. bekk í september í íslensku og stærðfræði. Nemendur í 9. bekk taka samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku í mars. Niðurstöður þessara kannana eru upplýsandi fyrir nemendur, forráðamenn og kennara en rýnt er í niðurstöður þeirra og þær nýttar til frekari úrvinnslu.
Lykilhæfni
Lykilhæfni tengist öllum námsgreinum skólans og vísar til hæfni sem snýr að nemandanum sjálfum. Lykilhæfni er hæfni þar sem alhliða þroski nemenda birtist. Lykilhæfni er þannig metin um leið og þekking og leikni í mismunandi greinum er metin og fléttast gjarnan inn í annað námsmat. Viðmið um matið er sett fram í liðum sem eiga við öll námssvið.
-
Tjáning
-
Skapandi og gagnrýnin hugsun
-
Samvinna og samskipti
-
Sjálfstæði
-
Tekur ábyrgð á eigin námi
Lykilhæfnin er skilgreind á veggspjaldi frá MMS þar sem nánar er fjallað um einstaka þætti sem liggja til grundvallar mati.
Veggspjald um lykilhæfni má finna hér.