top of page
IMG_0425.JPG

Nemendaverndarráð

Nemendaverndarráð starfar samkvæmt „Reglugerð um nemendaverndarráð“, nr. 584/2010.

Skipan ráðsins, starfshættir og tilvísun til þess fylgja V. kafla reglugerðarinnar þar sem segir:
 

16. gr.

Samræmingarhlutverk skólastjóra grunnskóla.

Skólastjóri grunnskóla skal samræma innan hvers grunnskóla störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda er lúta að sérfræðiþjónustu, náms- og starfsráðgjöf og skólaheilsugæslu með stofnun nemendaverndarráðs skv. 40. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla.

Jafnframt skal skólastjóri grunnskóla stuðla að samráði við félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöld vegna málefna einstakra nemenda eða nemendahópa eftir því sem þurfa þykir.
 

17. gr.

Hlutverk nemendaverndarráðs.

Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi skólaheilsugæslu, náms- og starfsráðgjöf og sérfræðiþjónustu og vera skólastjóra til aðstoðar um framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur. Samstarfið getur verið bæði vegna einstakra nemenda og forvarnarstarfs.
 

18. gr.

Skipan nemendaverndarráðs.

Skólastjóri skipar nemendaverndarráð til eins árs í senn og er ábyrgur fyrir starfrækslu ráðsins sem skal taka mið af aðstæðum í hverjum skóla. Skólastjóri eða fulltrúi hans stýrir starfi nemendaverndarráðs.

Í nemendaverndarráði grunnskóla eiga sæti skólastjóri og/eða fulltrúi sem hann tilnefnir, umsjónaraðili kennslu nemenda með sérþarfir, fulltrúi skólaheilsugæslu, fulltrúi sérfræðiþjónustu sveitarfélags og náms- og starfsráðgjafi. Einnig geta fulltrúar frá félagsþjónustu sveitarfélags og barnaverndaryfirvöldum tekið þátt í starfi nemendaverndarráðs þegar tilefni er til.
 

19. gr.

Vísun mála til nemendaverndarráðs.

Fái nemandi ekki fullnægjandi aðstoð vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika skal umsjónarkennari vísa málinu skriflega til nemendaverndarráðs.

Fulltrúar í nemendaverndarráði geta haft frumkvæði að því að mál einstakra nemenda séu tekin upp í ráðinu.

Starfsfólk skóla, foreldrar, nemendur og fulltrúar sérfræðiþjónustu skólans geta óskað eftir því við skólastjóra eða fulltrúa hans í nemendaverndarráði að mál einstakra nemenda eða nemendahópa verði tekin fyrir í ráðinu.

Ávallt skal upplýsa foreldra um að máli barna þeirra sé formlega vísað til skólastjóra eða nemendaverndarráðs og leita eftir samstarfi við foreldra um lausn mála eftir því sem framast er kostur.

Nemendaverndarráð skal taka fyrir málefni sem vísað er til ráðsins eins fljótt og auðið er.
 

20. gr.

Starfshættir nemendaverndarráðs.

Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði fyrir einstaka nemendur eða nemendahópa sem lögð hafa verið fyrir ráðið. Ráðið metur hvaða viðbótarupplýsinga er þörf og boðar á sinn fund umsjónarkennara og foreldra svo og aðra aðila sem tengjast málinu ef þörf krefur.

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um nauðsynlegar ráðstafanir, umbætur eða aðgerðir getur skólastjóri falið aðilum innan ráðsins að fylgja málinu eftir ef nauðsyn krefur.

Fara skal með persónuupplýsingar í samræmi við fyrirmæli um þagnarskyldu og gildandi lög um persónuvernd. Þeir sem sitja í nemendaverndarráði skulu gæta þagmælsku um atriði sem varða einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem þeir fá vitneskju um og leynt eiga að fara. Þagnarskylda nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt. Þagnarskylda helst þótt viðkomandi láti af störfum.

Nemendaverndarráð setur sér starfs- og verklagsreglur þar sem m.a. er kveðið á um tíðni funda ráðsins. Halda skal fund í nemendaverndarráði ef a.m.k. tveir fulltrúar í ráðinu óska þess. Fundir skulu færðir til bókar.

 

Nemendaverndarráð Grunnskóla Snæfellsbæjar skal kallað saman að hausti, til að skipuleggja og samræma sérfræðiþjónustu þá sem skólinn býður upp á hvert skólaár.
 

Í því sitja frá skólanum skólastjóri, aðstoðarskólastjóri og skólahjúrkunarfærðingur.  Deildarstjóri Lýsuhólsskóla skal sitja þá fundi er varða nemendur Lýsuhólsskóla.
 

Nemendaverndarráð fundar a.m.k. á þriggja mánaða fresti hvert skólaár.
 

Að öðru leyti skal kallað til fundar ef máli er vísað til nemendaverndarráðs.
 

Ef fulltrúi í nemendaverndarráði óskar eftir fundi skal kallað til fundar.
 

Um fundi nemendaverndarráðs:
 

Tilkynning skal berast forráðamanni/forráðamönnum um að boðað sé til fundar nemendaverndarráðs með a.m.k. 24ra klukkustunda fyrirvara.  Leitast skal við að bjóða forráðamanni/forráðamönnum að koma á fund nemendaverndarráðs og koma að lausn málsins, sé þess frekast kostur.
 

Skipa skal fundarritara í upphafi hvers fundar sem ritar fundargerð fundarins.  Við lok fundar skal fundargerð borin upp til samþykkis.  Fundarmenn undirrita fundargerð til marks um samþykki sitt.
 

Í fundargerðinni skal alltaf koma fram niðurstaða fundar um næsta skref, hvort sem um er að ræða lausn innan skólans eða að leitað er eftir aðstoð annarra sérfræðiaðila.

bottom of page