top of page
IMG_0116.JPG

Viðbrögð við áföllum

Ef nemandi deyr eða slasast alvarlega á skólatíma

  • Sá sem fyrstur kemur á slysstað á að sjá til þess að skyndihjálp sé veitt eins fljótt og mögulegt er og að hringt sé á sjúkrabíl og lögreglu - 112.

  • Kallað skal eftir skólastjóra, aðstoðarskólastjóra eða deildarstjóra sem stjórna frekari aðgerðum.

  • Skólahjúkrunarfræðingur er kallaður á staðinn.

  • Hringt skal í forráðamenn. Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri eða deildarstjóri sér um það.

  • Enginn svarar í símann nema ritari eða skólastjórnendur. Sem  minnstar upplýsingar eru gefnar og aðeins til þeirra sem hlut eiga að máli. Engar upplýsingar eru veittar til fjölmiðla.

  • Starfsmaður skólans bíður hjá slasaða barninu á meðan aðrir starfsmenn sinna hinum.

  • Safna skal þeim nemendum saman sem urðu vitni að slysinu því að þeir verða að fá að tjá sig um það sem þeir upplifðu, hugga hver annan, gráta saman og hughreysta.

  • Athuga skal hvort sá slasaði eigi systkini í skólanum, ná í það/þau og veita því/þeim sérstaka hjálp. Skólastjóri,aðstoðarskólastjóri /deildarstjóri eða ritari stjórna því.

  • Öllum nemendum skal vísað í sínar heimastofur.

  • Umsjónakennarar skólans eru fyrst kallaðir saman og þeim veittar upplýsingar um atburðinn og líðan nemandans. Athuga skal að nemendur séu ekki einir á meðan. Aðrir starfsmenn skiptast á að vera hjá nemendum þar til allir starfsmenn hafa fengið upplýsingar.

  • Hver bekkur er hjá sínum umsjónarkennara það sem eftir er skóladagsins, nemendur fá upplýsingar þegar þær liggja fyrir. Þeir fá tækifæri til að vinna úr viðbrögðum sínum og tilfinningum og fjalla nánar um atburðinn.

  • Ef um dauðsfall er að ræða er flaggað í hálfa stöng og sér húsvörður um það.

  • Skólahjúkrunarfræðingur og prestur eru kallaðir í skólann til að aðstoða við áfallahjálp ef þörf  krefur.

  • Senda skal út bréf til allra forráðamanna þar sem atburðum dagsins er lýst.

 

Utan skólatíma

Ef nemandi deyr eða slasast alvarlega utan skólatíma þá skal:
 

  • fá staðfestingu á andláti/ slysi hjá forráðamönnum eða lögreglu.

  • kalla til áfallaráð og bekkjarkennara viðkomandi nemanda. Hafa stuttan fund þar sem fólk skiptir með sér verkum og ákveður fyrstu viðbrögð skólans.

  • kalla eftir presti í skólann til að aðstoða við áfallahjálp ef þörf krefur.

  • senda út bréf til allra forráðamanna til að segja hvað gerst hafi.

  • athuga hvaða nemendur eru ekki í skólanum og hafa samband heim til þeirra.

 

Viðbrögð við andláti

Vegna andláts nemanda:
 

1. Skólastjóri leitar staðfestingar á andláti hjá forráðamönnum.

2. Andlát tilkynnt umsjónarkennara viðkomandi nemanda ásamt öðru starfsfólki skóla.

3. Skólastjóri og umsjónarkennari fara heim til nemanda.

4. Aðili úr áfallateymi ásamt sóknarpresti ræðir við bekk viðkomandi nemanda ásamt umsjónarkennara.

5. Skólastjóri/umsjónarkennari hefur samband við forráðamenn  bekkjarins.

6. Áfallateymi vinnur með bekk eins lengi og þörf er á.

 

Eftirfarandi atriðum skal sinnt í bekk næsta dag:

  • spyrja hvort allir viti nú þegar um dauðsfallið,

  • kveikja á kerti og hafa mynd af nemandanum á borðinu hans,

  • gefa nemendum tækifæri til að spyrja spurninga. Ef kennari hefur ekki svar á reiðum höndum er mikilvægt að afla upplýsinga og koma þeim til nemenda,

  • segja nemendum hvernig næstu skóladagar verði og hvað verði gert í tengslum við andlátið,

  • fá prestinn til að hafa samverustund fyrir alla nemendur og starfsmenn í kirkjunni,

  • hafa fund með áfallateymi í lok dags þar sem farið verður yfir stöðu mála og ákveða næstu skref.

 

Eftirfylgd vegna andláts:

  • Fulltrúar skólans fara í heimsókn til aðstandenda viðkomandi nemanda með samúðarkveðju frá skólanum.

  • Nemendur vinni með tilfinningar sínar, ýmist í skapandi vinnu eða í leik.

  • Gjarnan mætti útbúa veggteppi, stóra mynd eða eitthvað þess háttar.

  • Útbúin kveðja frá bekknum, minningargreinar, myndir og fleira sem við á.

  • Borð viðkomandi látið standa óhreyft í einhvern tíma í virðingarskyni við hinn látna.

  • Nemendur og kennarar geta tekið saman minningarbrot um hinn látna, skólasystkini síðan farið og afhent foreldrum þess. Það geta verið t.d. ljóð, teikningar, ljósmyndir eða eitthvað annað. Skólinn getur staðið fyrir minningardegi eða kvöldi og safnað peningum í minningu nemandans eða til styrktar málefni sem var hinum látna hugleikið.

  • Heimsókn að gröf hins látna.

  • Farið með blóm eða kerti á slysstað ef um slys var að ræða.

  • Minnast þess látna s.s. á afmælisdegi, við skólaslit, í ferðalögum, o.s.frv.

  • Hafa í huga að hið hefðbundna skólastarf sefar ótta og kvíða.

 

Jarðarför

  • Hvetja nemendur til að fara að jarðarförinni í fylgd með foreldrum sínum eða forráðamönnum.

  • Hvetja starfsfólk skólans til að fara að jarðarförinni.

  • Senda kveðju frá skólanum.

  • Ákveða hverjir eiga að skrifa minningargrein fyrir hönd skólans.

  • Flagga í hálfa stöng við skólann daginn sem jarðarförin fer fram.

 

Vegna andláts aðstandenda nemenda

1. Skólastjóri leitar staðfestingar á andláti hjá aðstandanda.

2. Umsjónarkennara tilkynnt um andlát viðkomandi.

3. Skólastjóri/umsjónarkennari fari heim til nemanda.

4. Endurkoma nemanda í skólann m.t.t. bekkjarins skal undirbúin í samráði við aðila úr áfallateymi og jafnvel að einhver þeirra aðila ræði við viðkomandi bekk og nemanda.

5. Aðili úr áfallateymi vinnur með viðkomandi nemanda eins lengi og þurfa þykir.

Í kjölfar dauðsfalls er barn oft fjarverandi í einhvern tíma. Það gefur kennaranum svigrúm til að undirbúa bekkinn og um leið sjálfan sig áður en nemandinn kemur aftur í skólann.

  • Muna þarf að öll hluttekning auðveldar nemandanum að koma aftur í skólann.

  • Tilkynna atburðinn starfsfólki.

  • Funda með áfallaráði og bekkjarkennara og skipta með sér verkum.

  • Segja bekknum frá því sem gerst hefur.

  • Lesa bókmenntir sem fjalla um ástvinamissi.

  • Hvetja nemendur til að útbúa einhvern hlut eða gjöf handa bekkjarfélaganum.

  • Nemendur geta skrifað kveðjur sem lýsa skilningi þeirra á þessum  erfiðu aðstæðum.

  • Senda kveðju frá skólanum heim til nemandans.

  • Hvetja þarf nemandann til að koma sem fyrst aftur í skólann. Kennari þarf að skapa andrúmsloft þannig að nemandinn finni ekki til kvíða þegar hann kemur aftur í skólann.

  • Mikilvægt er að kennarinn sé búinn að ráðfæra sig við nemandann um fyrsta daginn. Sumir vilja tala um atburðina en aðrir vilja ekki heyra minnst á þá.

  • Gæta þess að hafa samráð við ættingja nemandans um aðgerðir.

  • Hlúa vel að nemanda á eftir. Bjóða utanaðkomandi aðstoð, t.d. viðtöl við skólahjúkrunarfræðing.

  • Spyrja um líðan nemandans og fjölskyldunnar næstu mánuði á eftir.

 

Ekki er óalgengt að hegðun og námserfiðleikar barna stafi af sorg sem þau hafa orðið fyrir, jafnvel þótt langur tími sé liðinn, mánuðir eða jafnvel meira en ár. Rétt er að hafa í huga að skilnaður foreldra getur haft í för með sér svipuð sorgareinkenni og ef um dauðsfall væri að ræða. Því er mikilvægt að foreldrar geri skólanum viðvart ef um skilnað er að ræða.

 

Vegna andláts starfsmanns

1. Skólastjóri leitar staðfestingar á andláti hjá aðstandanda.

2. Skólastjóri upplýsir allt starfsfólk skólans um andlátið.

3. Skólastjóri eða staðgengill hans fær prest til að koma í skólann.

4. Skólastjóri fer heim til nánustu aðstandenda starfsmanns.

5. Flaggað í hálfa stöng.

6. Áfallateymi ákveður hver á að skrifa minningargrein fyrir hönd skólans.

7. Umsjónarkennarar viðkomandi bekkja, sem kennari kennir eða starfsmaður hefur haft samskipti við, tilkynna nemendum andlátið. Ef umsjónarkennari fellur frá tilkynnir skólastjóri umsjónarbekk andlátið.

8. Aðili/aðilar úr áfallateymi ræða við umsjónarbekk.

9. Skólastjóri/umsjónarkennari hefur samband við forráðamenn bekkjarins.

10.Áfallateymi vinnur með bekk eins lengi og þörf er á.

bottom of page