top of page
IMG_1577.JPG

Sýn og stefna Grunnskóla Snæfellsbæjar

Skólaþing Grunnskóla Snæfellsbæjar var haldið 6. febrúar 2019 þar sem fólki úr skólasamfélaginu var boðið að taka þátt en alls mættu um 80 manns á öllum aldri. Meginviðfangsefni þingsins var að ræða spurninguna ,,Hvaða eiginleikum og hæfni viljum við að nemendur sem útskrifast úr GSnb búi yfir? “Eftir miklar og góðar umræður var niðurstaðan sú að eftirfarandi gildi þóttu lýsa best þeim eiginleikum sem nemendur þyrftu að búa yfir til framtíðar; sjálfstæði, metnaður og samkennd og þar með urðu til ný einkunnarorð skólans.

Sjálfstæði – Að sýna sjálfstæði er að gera sér grein fyrir hver maður er, fyrir hvað maður stendur, þora að vera maður sjálfur og hafa ástríðu

Metnaður – Metnaðarfullur einstaklingur er einstaklingur sem gerir alltaf sitt besta, sama hvert viðfangsefnið er

Samkennd – Samkennd er getan til að geta sett sig í spor annarra, það er að skilja og finna til með öðrum

Í Grunnskóli Snæfellsbæjar vinnum við saman að því að skapa skólasamfélag þar sem við leggjum áherslu á sjálfstæði og árangur í námi. Það gerum við með jákvæðum skólabrag og áhugasömum og metnaðarfullum einstaklingum. 

Jákvæður skólabragur byggir á virðingu fyrir öllum einstaklingum og umhverfi þar sem fjölbreytileika skólasamfélagsins er fagnað. Hver og einn sé meðvitaður um gildi sitt í samfélaginu og axli ábyrgð á hlutverki sínu. Við leggjum áherslu á vellíðan nemenda með fjölbreyttu og áhugaverðu námi og að námsumhverfið sé vinsamlegt og hvetjandi.

Við leggjum mikið upp úr samstarfi og samvinnu allra í skólanum, nemenda sem og starfsfólks. Til þess þurfa öll samskipti að byggjast á virðingu, heiðarleika, sanngirni og tilliti hvers til annars.

Við leggjum metnað í skólastarfið með það að markmiði að nemendur okkar nýti styrkleika sína og hæfileika til að ná árangri. Þeir öðlist fjölbreytta reynslu og finni til ábyrgðar gagnvart eigin námi. Við lok skólagöngu geri þeir sér fulla grein fyrir námshæfileikum sínum og framtíðarmöguleikum í námi og starfi.

Skóli án aðgreiningar

Grunnskóli Snæfellsbæjar byggir starf sitt á  virðingu fyrir fjölbreytileikanum. Í því felst að reynt er að mæta þörfum nemenda með mismunandi kennsluaðferðum og áætlunum.

bottom of page