Kosningar til alþingis í Lýsukjördæmi
- hugrune
- 12 minutes ago
- 1 min read
Í allt haust hefur unglingastigið í Lýsudeild GSnb lært um stjórnarkerfið á Íslandi og þrískiptingu valds. Þar með talið var að læra um stjórnmálaflokka, framboð og kosningar.
Lokaverkefni þessarar námslotu var að nemendur stofni eigin stjórnmálaflokka, velji sér listabókstaf, finni slagorð og myndaði stefnu um ýmis kjarna málefni. Flokkarnir fóru í framboð til alþingis, háðu harða kosningabaráttu í sínu kjördæmi sem endaði svo með kosningum.
Framboðin buðu sig fram í Lýsukjördæmi þar sem þrír þingmenn komast á þing. Tveir flokkar voru í framboði, Framtíðarflokkurinn XX og Lýðræðisbandalagið XL.
Báðir flokkar tóku þátt í framboðsfundi þar sem þeir kynntu stefnu sína fyrir kjósendum og var fundurinn vel sóttur. Eftir kynningar var pallborð þar sem hægt var að spyrja frambjóðendur um stefnumálin og þar á eftir voru kosningaskrifstofur flokkana opnaðar þar sem hægt var að spjalla og gæða sér á veitingum sem frambjóðendur buðu uppá.
Kosningin fór fram 26. nóvember í Lýsukjördeild. 37 voru á kjörskrá og var 89% kosningaþátttaka.
Hægt var að kjósa milli kl 9:30 og 12:00 en talning fór fram strax á eftir í vitna viðurvist og undir stjórn formanns kjörstjórnar Staðarsveitar- og Breiðuvíkurkjördeildar sem var fengin á staðin sem óháður aðili við talninguna.
Niðurstaðan var eftirfarandi:
Auð og ógild atkvæði - 13%
Framtíðarflokkurinn- 45%
Lýðræðisbandalagið- 42%
Framtíðarflokkurinn náði því tveimur á þing en Lýðræðisbandalagið einum.
Verkefnið þótti takast vel og var áhugi mikill jafnt hjá frambjóðendum og kjósendum.






















Comments