Gróðursetning á skólalóð
Grunnskóli Snæfellsbæjar fékk birkiplöntur að gjöf frá Yrkjusjóði en skólinn var einn þeirra skóla sem tók þátt í verkefni á vegum ríkisins en Ríkisstjórn Íslands hefur á undanförnum árum aukið áherslu á aðgerðir til að vega á móti loftslagsbreytingum. Meðal þess er aukin skógrækt og landgræðsla þar sem markmiðið er að binda kolefni í jarðvegi og gróðri ásamt endurheimt og bætingu hnignaðra vistkerfa sem er mjög algengt hér á landi. Eitt af því sem gert er ráð fyrir að gera er að gróðursetja eitt birkitré fyrir hvern landsmann á þremur árum og er gert ráð fyrir að gróðursetja fyrsta árið eitt tré fyrir yngstu 10 árganga landmanna en á þeim aldri eru nú 49.670 einstaklingar. Þess vegna var í haust grunnskólum landsins boðið að taka þátt og þáði Grunnskóli Snæfellsbæjar eins og áður segir þetta boð. Nemendur í 4. bekk ásamt Ingu myndmenntakennara og Vagni Ingólfssyni húsverði skelltu sér út á dögunum til að gróðursetja plönturnar. Búið var að velja plöntunum stað og voru þær settar niður með girðingunni austan við skólann til að búa til skjól þegar fram líða stundir en verkefnið er hluti af Grænfánaverkefni skólans. Krakkarnir létu kuldann ekki á sig fá en veðrið var ekki alveg uppá það besta til gróðursetningar. Gróðursettu krakkarnir í kringum 180 plöntur sem þau ætla svo að fylgjast með og passa að þær verði fyrir sem minnstu hnjaski.
Comments