top of page

Fréttir úr skólastarfinu


Í upphafi þessa skólaárs eru 227 nemendur skráðir í skólann í 17 bekkjardeildum og á þrem starfstöðvum. Af þessum 227 nemendum eru 122 nemendur skráðir í skólann í Ólafsvík, 80 á Hellissandi og 25 nemendur í Lýsuhólsskóla en þar af er reiknað með 8 nemendum í leikskóla. Starfsmenn skólans eru 68 talsins í mun færri stöðugildum auk skólabílstjóra en þeir eru hinir sömu og hafa verið undanfarin ár. Við erum að upplifa mjög sérstaka tíma og erum á því stigi sem kallast hættustig almannavarna þar sem við þurfum að huga mjög vel að sóttvörnum sem snúa fyrst og fremst að fullorðna fólkinu og áhersla er lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og almennar smitvarnir með tíðum og reglubundnum þrifum. Jafnframt þarf að takmarka komur gesta í skólann og virða fjarlægðarmörk sem eru í gildi. Nemendur eru undanskildir þessum kvöðum en áhersla er lögð á að þeir temji sér hreinlæti og góða umgengni. Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla er tilgangur námsmats að leiðbeina nemendum við námið, hvernig þeir geti náð markmiðum þess og í námsmati á að leggja mat á hæfni nemenda út frá hæfniviðmiðum sem skilgreind eru í skólanámskrá. Í upphafi hvers skólaárs eiga þau hæfniviðmið sem liggja til grundvallar náminu að vera skráð í Mentor. Nemendur vinna að því að ná þessari hæfni og árangur þeirra er metinn jafnt og þétt. Niðurstöður þess mats eru síðan skráðar í kerfið og birtast þar á hæfnikorti nemanda. Nemendur og foreldrar geta fylgst með þróuninni á hæfnikorti nemandans í Mentor. Stærsta verkefnið okkar á þessu skólaári er að innleiða hæfnimiðað nám. Á síðasta skólaári innleiddum við hæfnimiðað nám, sem byggir á hæfniviðmiðum úr aðalnámskrá, í 8.-10. bekk og gekk sú innleiðing vel. Þetta skólaár munum við innleiða sömu vinnubrögð í yngri bekkjum skólans. Hæfniviðmiðin og námsmatið birtast nemendum og foreldrum inni á Mentor og þannig geta þeir séð til hvers er ætlast, fylgst með hvernig nemandanum gengur að tileinka sér það sem lagt er upp með og hvernig hann nýtir áfram það sem hann hefur lært.

​Nýjar fréttir
Eldri fréttir
bottom of page