top of page

Skólaþing GSnb


Sterk sjálfsmynd og jákvæð viðhorf eru besta vegarnestið út í lífið

Skilaboð Skólaþings Grunnskóla Snæfellsbæjar

„Hvaða eiginleikum og hæfni viljum við að nemendur sem útskrifast úr Grunnskóla Snæfellsbæjar búi yfir?“ Þessi spurning var rædd í þaula á Skólaþingi sem Grunnskólinn bauð til síðastliðinn miðvikudag, 6. febrúar. Þátttaka var mjög góð og umræður líflegar. Yfir 80 manns mættu á þingið, fólk á öllum aldri úr öllu sveitarfélaginu.

Að byggja upp persónulegan styrk og rækta jákvæð viðhorf er það sem skiptir mestu máli samkvæmt þátttakendum. Sjálfstraust, sjálfsöryggi og sjálfstæði komu fyrir aftur og aftur í niðurstöðum hópa. Einnig að leggja áherslu á jákvæð viðhorf, metnað og vera óhrædd við að gera mistök. Samskipti og félagsfærni voru einnig ofarlega á blaði.

Hilmar Már Arason, skólastjóri, setti þingið og sagði m.a.: „Eitt af markmiðum menntunar er að undirbúa nemendur fyrir framtíðina. Okkur er sagt að þróunin í tæknimálum verði mun hraðari næstu ár eða áratugi en síðustu ár og áratugi. Verkefni mannkyns verða stærri og flóknari t.d. hvað varðar umhverfismál og mannflutninga. Engin ástæða er til að fyllast bölmóði heldur horfa björtum augum fram á veginn og takast á við þau verkefni sem bíða. Öll getum við haft áhrif með afstöðu okkar og hegðun. Menntun næstu kynslóðar skiptir þar miklu máli.“

Fyrir þingið ræddu nemendur 5. – 10. bekkjar um hvað þeim fyndist vel gert í skólastarfinu og hvað mætti gera betur. Tveir nemendur kynntu niðurstöður þeirrar vinnu við góðar undirtektir. Margir nemendur lýstu ánægju sinni með starfsfólkið og matinn, svo dæmi séu tekin, en ýmsir áttu sér óskir um fjölbreyttari verkefni og fleiri sófa. Skiptar skoðanir voru um símalausa daga, sumir nemendur vildu fjölga þeim, en aðrir fækka.

Undir lok þingsins voru þátttakendur beðnir um að leyfa sér að hugsa rækilega út fyrir kassann og stinga upp á „villtum“ hugmyndum. Þær voru af ýmsu tagi, t.d. draumur um húsnæði með færanlegum veggjum, jóga- og hugleiðsluaðstaða og að dýr og annað yrði hluti af skólanum.

Virk þátttaka nemenda setti skemmtilegan svip á þingið allt frá því að skólakórinn söng í upphafi til kynningar á vinnu inni í bekkjum og síðast en ekki síst þátttaka þeirra sem sátu í vinnuhópum, ýmist með jafnöldrum eða með fullorðnum. Þeir, líkt og aðrir, áttu margar frábærar hugmyndir sem munu geta eflt starfið í Grunnskóla Snæfellsbæjar.

Nú vinnur ILDI, sem hafði umsjón með þinginu, að samantekt um skilaboð þingsins og verður hún birt á vefsíðu skólans auk þess sem sagt verður nánar frá hér. Það verður svo í höndum skólaráðs, ásamt einum fulltrúa úr bæjarstjórn, að skoða, vega og meta hugmyndir og ábendingar frá þinginu og endurskoða skólanámskrá og starfsáætlun.

​Nýjar fréttir
Eldri fréttir
bottom of page