top of page

Umferðaröryggi


Nú er daginn tekið að lengja og þá fjölgar börnum í umferðinni, bæði við leik og á leið til og frá skóla. Því er við hæfi að rifja upp nokkur atriði varðandi umferðaröryggi sem gott er að hafa í huga. Umferðarfræðsla í grunnskólum ber mestan árangur þar sem gott samstarf við heimili nemenda næst. Hlutverk heimilanna í umferðarfræðslu og forvörnum er mikilvægt því þar er mótunin sterkust.

Við hvetjum ykkur til að nýta góða veðrið og ganga eða hjóla í skólann með börnunum ykkar svo fækka megi bílum sem aka að skólanum á morgnana. Að vera börnum sínum góð fyrirmynd í umferðinni er öflugasta fræðslan auk þess að kenna þeim lög og reglur sem eru í gildi.

Núna fara fleiri nemendur að koma á reiðhjólum í skólann. Gæta þarf að því að öryggisbúnaður þeirra sé í lagi sem og notkun reiðhjólahjálma. Á þessari síðu er hægt að skoða fræðslumyndbönd um hjólreiðar http://www.samgongustofa.is/umferd/fraedsla-og-oryggi/fraedsla/reidhjol/ og í þessum ágæta bæklingi er m.a. hægt að fræðast um atriði sem hafa ber í huga varðandi hjólreiðahjálma https://www.landsbjorg.is/assets/myndir/umferd/us-hjalmar%20baeklingur%20lok%202006.pdf.

Á náms- og fræðsluvefnum www.umferd.is er svæði ætlað foreldrum/forráðamönnum. Hugmyndin er að leita eftir samstarfi við foreldra um leiðir sem þeir telja að komi sér vel í umferðarfræðslunni. Við þiggjum með þökkum allar hugmyndir og ábendingar frá ykkur. Hægt er að senda þær á netfangið hildur.karen.adalsteinsdottir@grundaskoli.is eða hafa samband við Hildi Karen í síma 8675602.

Athygli er vakin á að:

· samkvæmt 40. gr. umferðarlaga mega börn yngri en 7 ára ekki vera hjólandi í umferðinni nema í fylgd með 15 ára og eldri.

· eigi má reiða farþega á reiðhjóli eða rafvespu. Þó má vanur reiðhjólamaður sem náð hefur 15 ára aldri reiða barn yngra en 7 ára en ber þó að nota viðeigandi öryggissæti og búnað.

· best er að nota hjálm, það er eina vitið. Börnum yngri en 15 ára er skylt að nota reiðhjólahjálma og viðeigandi hlífðarbúnað þegar þau ferðast um á reiðhjólum, rafvespum, hjólabrettum og línuskautum.

​Nýjar fréttir
Eldri fréttir
bottom of page