Olweus gegn einelti
Grunnskóli Snæfellsbæjar vinnur samkvæmt eineltisáætlun Olweusar gegn einelti og andfélagslegri hegðun. Einn liður í áætlunni er að hafa svokallaða Olweusardaga þar sem nemendur einbeita sér að einstökum atriðum sem vinna gegn einelti og samskiptavanda. Olweusardagar voru haldnir dagana 5.-7. október og var ákveðið að huga sérstaklega að kurteisi, virðingu og samkennd. Þessi þrjú atriði eru nauðsynleg til að geta átt í góðum samskiptum við aðra og því mikilvægt að minna á þau og ræða. Samhliða umræðum um þessa þætti unnu nemendur hjörtu sem farið var með á hurðarhúna íbúðarhúsa í byggðarkjörnum Snæfellsbæjar til að vekja athygli bæjarbúa á verkefninu og hafa þeir fengið góðar viðtökur nú þegar.
Comments