Manneldismál
Öll börn í Grunnskóla Snæfellsbæjar skulu eiga kost á hollri máltíð í hádegi.
Heit máltíð sé í boði a.m.k. fjóra daga vikunnar en köld máltíð með brauðmeti hinn fimmta dag.
Ferskt, hrátt eða soðið grænmeti sé ávallt í boði með heitri hádegismáltíð.
Hlutfall orkuefna í hádegismáltíð sé í samræmi við manneldismarkmið, þ.e. fita er 30-35% orkunnar, prótein 10% eða meira og viðbættur sykur innan við 10% orkunnar. Þessum markmiðum er náð með því að velja kjötvörur með tilliti til fitumagns og nota feitar sósur sparlega. Kjötvörur teljast feitar ef fita fer yfir 15% af þyngd. Ef slík vara er á boðstólum ber að halda fitu í lágmarki í meðlæti og auka hlut grænmetis og annars meðlætis, t.d. brauðs, kartaflna, hrísgrjóna eða pasta.
Útgefinn skal matseðill til mánaðar í senn, í síðasta lagi 10 virkum dögum fyrir mánaðamót og birtur á heimasíðu skólans. Ef breyting verður á matseðli skal sú breyting tilkynnt á heimasíðu.
Vatn skal vera í boði með öllum máltíðum.
Þegar spónamatur er á boðstólum skal hafa gróft brauð eða ávexti með máltíðinni.
Í nestistíma að morgni er öllum nemendum boðið upp á ávöxt eða hrátt grænmeti, einnig drykkjarvatn og mjólk.
Nemendum er gefinn kostur á að fá holla morgunhressingu í 1. – 4. bekk. Stefnt skal að því að skóladagur nemenda hefjist á þeirri máltíð.