Útfærsla skólans á grunnþáttum í menntun og áhersluþáttum grunnskólalaga
Lykiltillögur um framkvæmd grunnþátta nýrrar aðalnámskrár
Í sameiginlegum inngangskafla nýju aðalnámskrárinnar, almennum hluta fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eru skilgreindir grunnþættir í íslenskri menntun. Þessir grunnþættir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Samkvæmt aðalnámskránni skulu þessir þættir ásamt áhersluþáttum grunnskólalaga vera leiðarljós í almennri menntun og starfsháttum grunnskóla og grunnskólinn er mikilvægur vettvangur til að þroska með nemendum hæfni í anda grunnþáttanna og búa þá undir þátttöku í lýðræðissamfélagi.
Kennarar Grunnskólans í Snæfellsbæ unnu saman í starfshópum við að móta lykiltillögur um það hvernig skuli samræma grunnþættina við skólastarfið. Kennarar unnu saman í hópum, skráðu þá vinnu sem nú þegar er unnin innan skólans og verður unnið að áfram í tengslum við grunnþætti, komu með hugmyndir að verkefnum/þemaverkefnum í námsgreinum, atriði í stefnumótun grunnþáttarins, breytingum í vinnubrögðum skólans vegna grunnþáttarins, aðkomu allra í skólasamfélaginu að starfi við grunnþáttinn og fleira sem hjálpar við að innleiða grunnþættina í skólastarfið. Starfshóparnir unnu með hvern grunnþátt fyrir sig og settu fram lykiltillögur um ofangreinda þætti.
Hér fyrir neðan eru tillögurnar frá starfshópunum um vinnu í hverjum þætti fyrir sig, flokkaðar eftir því hvort verið er að vinna að þeim nú þegar eða hvort verið er að innleiða þá í skólastarfið.