top of page
IMG_0449.JPG

Þróunarverkefni

Hreint haf – ungt fólk gegn plasti í hafi

Í verkefninu Hreint haf – ungt fólk gegn plasti í hafi er sérstök áhersla lögð á „umbreytandi nám" (e. transformative education) og „getu til aðgerða" (e. action competence). Þar koma saman margar kennslufræðilegar nálganir sem ýta undir frumkvæði, virkni og nýsköpun nemenda, þ.e. leitarnám, lýðræði og þátttökunám. Allt eru þetta veigamiklir þættir í menntun til sjálfbærni.

Verkefnið var unnið í nánu samstarfi Grunnskóla Snæfellsbæjar (GSNB) og Landverndar. Landvernd, umhverfisverndarsamtök hafa leitt innleiðingu menntunar til sjálfbærni í skóla á Íslandi og taka um 200 skólar á öllum skólastigum þátt í verkefninu Skólar á grænni grein sem styður við sjálfbærni og umhverfismennt í skólum. Skólastarf Grunnskóla Snæfellsbæjar fer fram á þremur starfsstöðvum; Hellissandi, Lýsuhóli og Ólafsvík. Lýsuhólsskóli hefur tekið þátt í verkefni Landverndar frá upphafi, árinu 2001 og starfsstöðvar á Hellissandi og í Ólafsvík frá árinu 2006. Skólinn hefur unnið á fjölbreyttan hátt að innleiðingu menntunar til sjálfbærni og verið leiðandi á sviðum átthagafræða. Nemendur hafa fengið viðurkenningar fyrir verkefnavinnu í þágu umhverfisins og hefur Umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitt nemendum Lýsuhólsskóla viðurkenninguna Varðliðar umhverfisins í þrígang.

Þróunarverkefnið Hreint haf – Ungt fólk gegn plastmengun í hafi var unnið á öllum starfstöðvum og öllum skólastigum en þó fór veigamesti hluti þess fram í Ólafsvík þar sem nemendur og umsjónarkennari í 6. bekk Guðrún Jenný Sigurðardóttir tóku virkan þátt í þróun verkefnisins í samstarfi við Landvernd.

Lokaskýrsla

bottom of page