Hvað er með ásum í Grunnskóla Snæfellsbæjar
- hugrune
- Mar 17
- 1 min read
Grunnskóli Snæfellsbæjar tekur þátt í fræðslu- og listsköpunarverki byggðu á norrænni goðafræði í samvinnu við Árnastofnun. Tilefnið er opnun nýrrar handritasýningar, Heimur í orðum í Eddu. Goðin eru nálæg veruleika barna í dag vegna tölvuleikja og bíómynda en í þessu verkefni er leitast við að virkja þau sjálf, ímyndunarafl þeirra og sköpunarkraft − tengja við handritin − sjálfa uppsprettuna.
Árnastofnun fékk styrk úr Barnamenningarsjóði fyrir verkefnið og er það unnið í samvinnu við skóla um allt; Grunnskóla Drangsness, Grunnskóla Hólmavíkur, Grunnskóla Snæfellsbæjar, Nesskóla Neskaupstað, Vesturbæjarskóla, Hraunvallaskóla og Myndlistaskólann í Reykjavík. Í hverjum skóla eru kennarar sem hafa unnið með þeim Ingibjörgu Þórisdóttur og Mörtu Guðrúnu Jóhannesdóttur að því að miðla handritaarfinum til nemenda sinna og vinna úr því fjölbreytta efni sem handritin hafa að geyma.
Nemendur í 3.-4. bekk hafa unnið undanfarnar vikur með umsjónarkennurum sínum, Adelu og Kristínu Helgu ásamt Ingu myndmenntakennara að norrænni goðafræði og var foreldrum og forráðamönnum boðið í heimsókn til að skoða afrakstur verkefnisins. Föstudaginn 21. mars eigum við svo von á safnkennara frá Árnastofnun með kynningu á handritunum fyrir nemendur í 3.-6. bekk.


Comments