top of page

Háskólalest Háskóla Íslands

Vorið er komið og það þýðir Háskólalest Háskóla Íslands rúllar af stað og verður stödd á Ólafsvík og Grundarfirðir dagana 27. - 28.maí með fjölbreytta dagskrá í boði. Haldin verða vel valin námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir grunnskólanemendur, en dagskránni lýkur svo með sannkallaðri vísindaveislu fyrir allt samfélagið.


Vísindaveislan verður haldin í Fjölbrautarskóla Snæfellinga, laugardaginn 28. maí kl. 12-16.

Þar býðst fjölskyldumeðlimum á öllum aldri að kynnast undrum vísindanna með gangvirkum og lifandi hætti í gegnum fjölbreytt tæki, tól og smiðjur.


Verið hjartanlega velkomin – enginn aðgangseyrir!


Megin áherslan í starfi Háskólalestarinnar er á að kynna vísindi á lifandi og fjölbreyttan hátt fyrir ungu fólki, styðja við starf grunnskólanna og efla tengsl við landsmenn á öllum aldri. Í áhöfn lestarinnar eru kennarar og nemendur við Háskóla Íslands, sem flestir hverjir eru líka leiðbeinendur í Vísindasmiðju HÍ og Háskóla unga fólksins.

Föstudaginn 27.maí mun nemendum í 5.-10.bekk í Grunnskóla Snæfellsbæjar (Ólafsvík) bjóðast námskeið um flest allt milli himins og jarðar, þar sem fjallað verður m.a. um töfra ljóss og lita, efnafræði, blaða- og fréttamennsku, orkuskipti, vindmyllur, nýsköpun, sjúkraþjálfun, loftslagsbreytingar, dulkóðun, draugagang, tröll og þjóðsögur og japanskir menningarheimar skoðaðir.


Háskólestin hefur heimsótt hátt á fjórða tug áfangastaða um allt land og fengið einstaklega hlýjar móttökur hvert sem komið er. Það er því alltaf mikið tilhlökkunarefni að hefja ferðina ár hvert með fjölbreytta fræðslu í en allt starf lestarinnar er skipulagt í nánu samstarfi við sveitarfélög og skóla hvers áfangastaðar.


Það má því með sanni segja að tilhlökkun sé í lofti fyrir fjölbreyttri fræðslu Háskólalestarinnar í frábærum félagsskap ungu kynslóðarinnar.

Kær kveðja og hlökkum til að sjá sem flesta,

Áhöfn Háskólalestar HÍ


Comentários


​Nýjar fréttir
Eldri fréttir
bottom of page