Dagur íslenskrar náttúru
Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur 16. september ár hvert en þar sem spáði betra veðri degi fyrr, þá plöntuðu nemendur í 6. og 9. bekk í skógræktarsvæði skólans í Mjóadal í Ólafsvík, þriðjudaginn 15. september. Plantað var 670 birkiplöntum efst í dalnum. Nemendur stóðu sig frábærlega, gengu rösklega til verks og vönduðu sig við gróðursetninguna.
Forverar skólans tóku þátt í Yrkjuverkefninu frá upphafi en sjóðurinn byrjaði að kosta plöntur til skólabarna árið1992. Hér að neðan eru upplýsingar um gróðursetningar Yrkjuplantna á vegum Grunnskóla Snæfellsbæjar og forvera hans.
Gróðursetningarár:
Hellissandur 1993-2002
Lýsuhólsskóli 1992, 1993, 1997 og 1998.
Ólafsvík 1993, 1994, 1997, 1999-2002
Sameiginleg ár eru því 1992-2002 og svo aftur frá árinu 2008 til dagsins í dag.
Heildafjöldi plantna yfir tímabilið, með árinu í ár, er þá 16.420 plöntur.
Yrkja – sjóður æskunnar til ræktunar landsins, er sjóður sem úthlutar trjáplöntum til grunnskólabarna. Sjóðurinn hefur eigin stjórn, en Skógræktarfélag Íslands hefur umsjón með honum.
Árið 1990 var gefin út bókin Yrkja í tilefni 60 ára afmælis Vigdísar Finnbogadóttur sem þá var forseti Íslands. Hagnaður af sölu bókarinnar, ásamt öðrum framlögum, var settur í sjóð sem stofnaður var árið 1992. „Markmið sjóðsins er að kosta trjáplöntun íslenskra skólabarna á grunnskólastigi á ári hverju“, stendur í skipulagsskrá hans. Með þessu er honum ætlað að kynna mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu og ala þannig upp ræktendur framtíðarinnar.
Vaxtatekjurnar eru notaðar til að kaupa trjáplöntur fyrir grunnskólana sem nemendur síðan gróðursetja. Auglýst er eftir umsóknum í sjóðinn snemma á hverju ári. Allir grunnskólar landsins geta sótt um tré í sjóðinn, til gróðursetningar bæði að vori til og á haustin.
(Tekið af heimasíðu verkefnisins - https://yrkja.is/)