top of page

Fréttaskot 24.03. 2020

Við viljum byrja á því að þakka öllum þeim sem mynda skólasamfélagið okkar fyrir að standa sig jafnvel og þeir eru að gera.

  • Starfsfólki fyrir að vera faglegt, jákvætt og lausnamiðað.

  • Nemendum fyrir að vera virkir, jákvæðir og fara eftir þeim ströngu reglum sem þeir þurfa að hlíta.

  • Foreldrum fyrir að vera jákvæðir og styðjandi.

  • Bæjaryfirvöldum fyrir að vera styðjandi og hvetjandi.

Í dag eru liðnir 18 dagar síðan ríkislögreglustjóri lýsti yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna kórónaveiru (COVID-19). Frá þeim tíma höfum við í skólanum starfað eftir þeim tilmælum sem gefin hafa verið út sem hafa það að markmiði að halda úti eins miklu skólastarfi og kennslu og kostur er við þessar aðstæður og fyrirskipaðar takmarkanir. Við höfum farið eftir fyrirmælum frá embætti landlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sem hægt er að nálgast á frábærri síðu fyrrgreindra aðila https://www.covid.is/ sem og í tölvupóstum sem við höfum fengið frá fyrrgreindum aðilum. Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins heldur úti góðri síðu https://www.ahs.is/skolar/ þar sem eru leiðbeiningar og upplýsingar sem almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins hefur sent á skólastjórnendur.

Fyrstu smitin voru greind 6. mars og hefur veiran breiðst út síðan þá. Íslensk yfirvöld brugðust hárrétt við. Með réttum viðbrögðum hefur þeim tekist að hægja á framgangi faraldursins og góðu fréttirnar eru þær að hingað til virðast börn hafa komið vel út úr þeim faraldri sem nú geisar. Er það í góðu samræmi við þær tilgátur sem unnið hefur verið eftir.

Við erum að undirbúa okkur undir að skólastarf muni skerðast enn meir. Kennarar á hverju stigi/deild eru að undirbúa áætlun sem kynnt verður þegar til skerðinganna kemur og nemendur æfðir í að vinna eftir henni. Áherslan í þeirri áætlun er á fjarnám nemenda og þeir hvattir til að koma sér upp stundaskrá þar sem fjölbreytnin ráði ríkjum. Kennarar verða svo til taks á tilteknum tímum. Þetta verður kynnt betur þegar þess þarf.

Á þessum sögulegu tímum sem við lifum er gott að vera í núinu, muna eftir öllu því góða sem er í kringum okkur og þakka fyrir það. Það er svo margt sem við getum verið þakklát fyrir.

Ábendingar um hvað má betur fara í skólastarfinu eru vel þegnar og sendist á skólastjóra, á netfangið hilmara@gsnb.is.

Með vinsemd og virðingu

Skólastjórnendur GSnb

​Nýjar fréttir
Eldri fréttir
bottom of page