Árshátíð GSnb
Á hverju skólaári eru haldnar árshátíðir fyrir nemendur í Grunnskóla Snæfellsbæjar. Þar gefst nemendum tækifæri til að vinna að verkefnum sem þjálfa framkomu, samvinnu, framsögn og sköpun sem eru mikilvægir þættir í skólastarfi.
Árshátíð 5.-7. bekkjar var haldin fimmtudaginn 20. febrúar í Félagsheimilinu Klifi. Nemendur fluttu leikritið Blái hnötturinn eftir Andra Snæ Magnason en söngtextar og lög eru eftir Kristjönu Stefánsdóttur en um undirleik á sýningunni sá Evgeny Makeev. Sagan gerist lengst út í geim á Bláum hnetti þar sem búa fullt af börnum sem fullorðnast ekki. Dag einn kemur óvæntur gestur í heimsókn í þeim tilgangi að ræna þau æskunni. Þá hefst mikið ævintýri sem krefst þess að börnin standi saman og treysti á hvert annað en það er einmitt boðskapur sögunnar. Allir nemendur á miðstigi tóku þátt í leiksýningunni sem var mjög ánægjulegt. Við viljum þakka foreldrum fyrir aðstoð við búningaval og annan undirbúning. Nemendur í 9. bekk sáu um tæknimálin en það voru þær Mónika, Anja og Dagný undir stjórn Hugrúnar sem hafði yfirumsjón með tæknimálum og eru þeim hér með færðar bestu þakkir fyrir framlagið. Sýningin var vel sótt og enduðu nemendur kvöldið á balli þar sem allir skemmtu sér vel.