Góður gestur í heimsókn
Mánudaginn 25.11. kom Þorgrímur Þráinsson í heimsókn á starfstöðvar skólans í Ólafsvík og á Lýsu. Hann hitti nemendur tíundabekkja með fyrirlesturinn „Vertu ástfanginn af lífinu“ þar sem hann fjallaði m.a. um að það er ekki sjálfgefið að ná árangri í lífinu. Flestir sofni í þægindahringnum og óttinn við að mistakast komi í veg fyrir að fólk láti draumana rætast. Mikilvægt sé að hafa hugfast að lífið sé núna. Hvert augnablik sé dýrmætt og það skipti máli að setja sér markmið, gera góðverk, hrósa og vinna litla sigra alla daga. Þannig sé maður besta útgáfan af sjálfum sér. Að þessum fyrirlestri loknum var hann með skapandi skrif fyrir nemendur.
Á þessu ári átti Þorgrímur tvöfalt afmæli, þann 8. janúar varð hann sextugur og það eru liðin þrjátíu ár síðan hans fyrsta bók, Með fiðring í tánum, kom út. Á þessum þrjátíu árum hefur hann skrifað 37 bækur! Þorgrímur hefur sýnt skólanum mikla ræktarsemi í gegnum tíðina og verið bóngóður, m.a. komið að undirbúningi og framkvæmd Bókaveislunnar, verið með fyrirlestra og námskeið fyrir nemendur og foreldra. Í tilefni þessara tímamóta færði Hilmar skólastjóri Þorgrími þakklætisvott fyrir þann hlýhug sem hann hefur sýnt skólanum.