Menningarmót
Menningarmót fór fram í Grunnskóla Snæfellsbæjar í síðustu viku. Menningarmótsverkefnið sem einnig er þekkt undir nafninu “Fljúgandi teppi” er þverfagleg aðferð í starfi með börnum og fullorðnum, er hún hugsuð til þess að varpa ljósi á fjölbreytileika menningarheima þátttakenda sem og styrkleika. Kristín R. Vilhjálmsdóttir kennari, menningarmiðlari og verkefnastjóri
fjölmenningar hjá Borgarbókasafni er hugmyndasmiður þessa verkefnis. Hefur hún mótað og notað Menningarmót með góðumárangri í kennslu á Íslandi síðan 2008. Kristín leiðbeindi starfsfólki sem og nemendum með innleiðingu verkefnisins og fór hún yfir hugmyndafræði þess og hvernig hægt væri að framkvæmda það á fjölbreytilegan hátt. Vinnunni lauk svo með menningarmóti þar sem nemendur sýndu afrakstur vinnu sinnar. Hófst sýningin með setningarathöfn, þar sagði Hilmar Már Arason skólastjóri meðal annars í ræðu sinni “ Nemendur hafa síðustu daga verið að skoða og greina menningarhugtakið, sem er eitt af þessum hugtökum sem erfitt er að festa reiður á en nemendur gerðu það lista vel. Á Menningarmóti sem þessu er leitast við að varpa ljósi á styrkleika og fjölbreytta menningarheima nemenda. Nemendur unnu með sjálfsmynd sína, tilfinningar og ímyndunarafl í útfærslu verkefna sem snerust fyrst og fremst um þau sjálf. Hver þau eru, hverjir hafa verið stærstu viðburðir í lífi þeirra og hvaða hlutir séu þeim kærastir. Þetta túlka þau og tjá á mjög mismunandi hátt hér í dag. Slagorð þessa verkefnis er: „Þegar einstaklingur blómstrar, blómstra samfélög“, sem á vel við en þetta er það sem við höfum í huga í öllu okkar starfi.” Við þetta sama tækifæri söng Skólakór Snæfellsbæjar tvö lög undir stjórn Veronicu Osterhammer og undirleik Nönnu Aðalheiðar Þórðardóttur. Samúel Jón Samúelsson nemandi í 5. bekk spilaði á harmoniku, Ágúst Ingi Kristínarson nemandi í 7. bekk spilaði á gítar og Hanna Imgront nemandi í 6. bekk söng. Að þessu loknu gafst gestum kostur á að skoða vinnu nemenda og sjá hvað er þeim kært. Stóðu nemendur sig mjög vel í allri þessari vinnu og mjög skemmtilegt að skoða afrakstur hennar, spjalla við nemendur og hlusta á þau segja frá. Við þetta sama tækifæri færði Kristín skólanum skjal til staðfestingar á því að Grunnskóli Snæfellsbæjar er nú orðin menningarmótsskóli. Menningarmót nemenda í Grunnskóla Snæfellsbæjar á Lýsuhóli fór svo fram á mánudeginum þar sem þau sýndu afrakstur sinnar vinnu.