top of page

Menningarmót – áhersla á menningar- og tungumálafjársjóð nemenda


Í tilefni þess að fjölmenningarhátíð Snæfellsness verður sunnudaginn 20. október ætlum við að vera með Menningarmót í skólunum í Grundarfirði og Snæfellsbæ dagana 16.-18. október.

Menningarmótsverkefnið, sem er líka þekkt undir nafninu „Fljúgandi teppi”, er þverfagleg aðferð í starfi með börnum og fullorðnum, hugsuð til þess að varpa ljósi á styrkleika og fjölbreytta menningarheima þátttakenda.

Menningarmót má útfæra í flestum námsgreinum og námssviðum. Þau tengjast oft vinnu með sjálfsmynd nemenda, tilfinningar, tjáningu og ímyndunarafl er virkjað á uppbyggjandi hátt.

Lykilatriði við útfærslu Menningarmóts er að litið sé á hugtakið fjölmenningu í víðum skilningi – eitthvað sem varðar alla í samfélaginu, ekki einungis ákveðna hópa. Áhersla er lögð á áhugamál og menningu hvers og eins. Sú menning getur auðveldlega tengst landi og þjóð – en gerir það ekki endilega. Verkefnið er meðal annars skapandi leið til að vinna með Heimsmarkmið 4.7 sem tengist alheimsvitund og viðurkenningu á fjölbreyttri menningu.

Kristín R. Vilhjálmsdóttir, sem er kennari, menningarmiðlari og verkefnastjóri fjölmenningar hjá Borgarbókasafni, er hugmyndasmiður verkefnisins. Hún hefur mótað og notað Menningarmótin með góðum árangri í kennslu á Íslandi síðan 2008. Hún leiðbeindi okkur með innleiðingu þessa verkefnis og var hún með námskeið þriðjudaginn 8. október þar sem hún fór yfir hugmyndafræði verkefnisins og hvernig hægt er að framkvæma það á fjölbreytilegan hátt.

Opið hús verður í skólunum föstudaginn 18. október, frá kl. 12:00 til 13:00 þar sem foreldrum og velunnurum er boðið að koma og skoða afrakstur vinnu nemenda.

Mynd: Menningarmót í Reykjavík. Mynd tekin af síðunni www.menningarmot.is

​Nýjar fréttir
Eldri fréttir
bottom of page