top of page

Læsisfimma


Síðasta vetur vann þriðji bekkur í Grunnskóla Snæfellsbæjar ásamt fleirum undir kennsluháttum læsisfimmunnar eða the daily five. Læsisfimman er skipulag yfir kennsluhætti og aðferðir í læsi og íslensku. Hún byggist á lýðræðislegu umhverfi þar sem nemendur velja sjálfir verkefni, hvar þeir eru og hvernig þeir vinna verkefnin. Þá er mikil áhersla lögð á sjálfstæði og sjálfsaga nemenda.

Eins og nafnið gefur til kynna þá skiptist læsisfimman í fimm þætti: Sjálfstæður lestur, vinalestur, hlustun, ritun og orðaforði. Nemendur byrja á því að setjast á „mottuna“ þar sem hver og einn á sinn stað. Það eru nákvæmar reglur um hvernig nemendur eigi að velja sér eitt af þessum viðfangsefnum, á hvaða svæði þeir vinna og hvernig þeir bera sig að. Áður en fimman er tekin í notkun eru þeir þjálfaðir í hverjum þætti fyrir sig. Eftir hverja vinnulotu þá ganga nemendur frá og setjast aftur á „mottuna“. Þar fer fram sjálfsmat um hvernig gekk að vinna o.fl. Auk þess lesa nemendur upp verkefnin sín sem þeir vinna í ritun þegar þeir eru tilbúnir þannig þeir þjálfast líka í upplestri.

Í sjálfstæða lestrinum setja nemendur sér markmið. Kennarar fá niðurstöður úr lestrarprófum og fylgjast gætilega með lestrinum og hjálpa nemendum að setja sér viðeigandi markmið. Þeir skrá það niður og vinna markvisst að þeim með kennaranum sínum, t.d. stoppa við punkt, æfa sérhljóða o.s.frv.

Þessi vinna hefur reynst okkur mjög vel. Nemendur eru áhugasamir og finnst þetta skemmtilegt skipulag. Ef þeir komast að því að læsisfimma fellur niður má heyra: „Ha? Af hverju er ekki fimma?“ eða „er ekki örugglega fimma í dag?“. Fyrir utan það hvað þetta er skemmtilegt og lærdómsríkt þá eru nemendur að ná markmiðum Aðalnámskrár grunnskóla í öllum þáttum í íslensku.

Þessi aðferð hefur reynst svo vel að Grunnskóli Snæfellsbæjar hefur ákveðið að leiða hana inn í 1.-7. bekk.

Til gamans er hér ein saga sem nemandi vann sjálfur í ritun:

Geimveran

Fyrir langa löngu bjó fúl og skapill geimvera sem hét Fýlupúki á Mars. Fýlupúki kallaði Mars höll leiðindanna. Einn daginn var Fýlupúki á geimskipinu sínu og sá Venus. Fýlupúki ákvað að stoppa í smá stund á Venus. En svo kom ugla og réðst á Fýlupúka: “AAAAA!!!” Öskraði Fýlupúki, stökk upp í geimfarið sitt og flúði. Hann flúði alla leið til Úranus en þar hitti Fýlupúki hrekkjusvín. “Haha, af hverju ertu með svona stórt og ljótt nef? Ó fyrirgefðu þú ert ekki með nef HAHA!” Sagði hrekkjusvínið.

Stuttu síðar komu tvö önnur hrekkjusvín og sögðu í kór: “Hvar fékkstu þessi föt? Í ruslinu eða hvað?” Fýlupúki táraðist því hann vildi ekki viðurkenna að hann fékk fötin sín úr ruslinu. “Farið núna strax!” öskraði Fýlupúki. “Nei!” sögðu hrekkjusvínin í kór. “Ef þið farð ekki fer ég!” og þá stökk Fýlupúki samstundis upp í geimfarið sitt og flúði alla leið yfir Satúnus, Júpíter, Mars, Jörðina, Venus og lenti á Merkúr. Fýlupúki fór að hágráta en svo kom álfadís sem sagði: “Ekki gráta, því hér er gáta:

Ef þú þinn rétta stað ferð á Breyttu nafni og gleði kemur þá

Fýlupúki fór heim á Mars eða höll leiðindanna? En allt í einu datt Fýlupúka í hug hvað þetta þýddi sem álfadísin sagði, hann átti að kalla Mars Mars en ekki höll leiðindanna. Fýlupúki fann fyrir tilfinningu sem hann hafði aldrei fundið áður. Hann kallaði á álfadísina og sagði: “Hvað er að gerast?” vegna þess að það komu næstum allar sjtörnurnar í geimnum og umkryngdu hann. “Þetta er gleði” sagði álfadísin og klappaði af gleði sjálf. “Breyttu nafni og gleðin kemur þá”. “Jáhá!” sagði Fýlupúki og brosti glaður.

Maríanna og Kristín Helga

​Nýjar fréttir
Eldri fréttir
bottom of page