top of page

Skólabyrjun


Grunnskóli Snæfellsbæjar var settur fimmtudaginn 22. ágúst, í blíðskaparveðri. Þetta skólaár verða 237 nemendur í skólanum í 17 bekkjardeildum og á þrem starfstöðvum. Af þessum 237 nemendum eru 117 nemendur skráðir í skólann í Ólafvík, 94 á Hellissandi og 26 nemendur í Lýsuhólsskóla, þar af eru sjö í leikskóladeildinni. Þetta eru átta færri nemendur en voru á sama tíma fyrir ári í skólanum. Starfsmenn skólans eru 65 í mun færri stöðugildum, 31 almennur starfsmaður og 34 kennarar og stjórnendur.

Þetta skólaár munum við halda áfram að þróa kennslufyrirkomulag, sem við byrjuðum að prófa í fyrra með góðum árangri, sem er kölluð læsisfimman. Læsisfimman er skipulag eða rammi utan um kennsluhætti og aðferðir í læsi og íslensku. Hún byggist á lýðræðislegu umhverfi þar sem nemendur velja sjálfir verkefni, hvar þeir eru og hvernig þeir vinna. Þá er mikil áhersla lögð á sjálfstæði og sjálfsaga nemenda. Eins og nafnið gefur til kynna þá skiptist læsisfimman í fimm þætti sem eru: Sjálfstæður lestur, vinalestur, hlustun, ritun og orðaforði. Aðferðin reyndist það vel að við ætlum að innleiða hana í 1.-7. bekk og fikra okkur áfram með hana í unglingadeildinni.

Á þessu skólaári ætlum við að þróa þematengt nám í unglingadeildinni en oft hefur unglingadeildum grunnskóla verið legið á hálsi að vera of greinamiðaðar, ósveigjanlegar og einhæfar. Markmiðið er að þróa fjölbreyttari náms- og kennsluhætti þar sem meginviðfangsefnin eru að mestu eða að öllu leyti samþætt við sem flestar námsgreinar. Með þessu verkefni vonumst við til að geta höfðað betur til mismunandi áhuga og getu nemenda. Jafnframt ætlum við að bjóða upp á tvo verkefnatíma á viku í unglingadeildinni. Í verkefnatímum vinna nemendur undir verkstjórn kennara en velja sjálfir hvaða námsgrein þeir sinna hverju sinni.

Nú í haust innleiðum við í 8.-10. bekk hæfnimiðað námsmat sem byggir á hæfniviðmiðum úr aðalnámskrá. Hæfniviðmiðin og námsmatið birtast nemendum og foreldrum inni á Mentor þannig geta þeir séð til hvers er ætlast, fylgst með hvernig nemandanum gengur að tileinka sér það sem lagt er upp með og hvernig hann nýtir áfram það sem hann hefur lært. Við erum komin með ágætis reynslu af slíku mati í 10. bekk.

Ein af áherslum í skólastarfinu er teymiskennsla og teymisvinna með það að markmiði að bæta starfið og koma betur til móts við alla okkar nemendur. Ávinningur þessa fyrirkomulags er ótvíræður að okkar mati, þannig hefur samstarf og samábyrgð aukist, einangrun starfsfólks minnkað, aukin vinnuhagræðing þar sem styrkleikar hvers og eins fá notið sín og starfsfólk upplifir að það fái aukinn stuðning hvert frá öðru.

Við höfum góða tilfinningu fyrir vetrinum, erum vel mönnuð, með gott starfsfólk sem er vel menntað, leggur sig fram um að gera sitt besta og er óhrætt við að leita nýrra leiða. Jafnframt með góða nemendur og samstarfsfúsa foreldra. Með slíkt bakland eru okkur allir vegir færir.

​Nýjar fréttir
Eldri fréttir
bottom of page