9. bekkur á Laugum í Sælingsdal
Vikuna 4.-8. febrúar síðastliðinn fórum við í 9. bekk í grunnskóla Snæfellsbæjar í skólaferð að Laugum í Sælingsdal. Þar vorum við með nemendum frá grunnskólanum í Stykkishólmi, grunnskólanum á Húsavík og frá Þingeyjarskóla. Við lögðum af stað á mánudagsmorgun og vorum komin heim aftur seinni partinn á föstudeginum. Ein af reglunum frá skólabúðunum á Laugum er að öll snjalltæki eru bönnuð og við vorum smá stressuð að fá ekki að hafa símana okkar alla vikuna.
Markmið búðanna er að hvetja nemendur til að vera virk í félags- og tómstundastarfi, efla sjálfstraust, samvinnu, tillitssemi ásamt hópeflingu.
Margt og mikið var brallað þessa viku, má þar nefna gönguferð til sveitabæjarins Hóla þar sem við fengum fræðslu um sveitalífið og kynntumst dýrunum á bænum. Gaman er að segja frá því að á bænum er talandi krummi. Annað námskeið sem við tókum þátt í er svokölluð “Traustganga” þar sem nemendur leiða félaga sína með blindragleraugu úti í náttúrunni. Fullt af fleirum skemmtilegum námskeiðum voru eins og “Gögl” og “Draumateymi” þar sem við fórum í alls konar leiki úti. Við vorum mjög heppin með veður þar sem við vorum mjög mikið úti. Toppurinn var svo fimmtudagskvöldið þar sem við tókum þátt í svokölluðum Laugaleikum þar sem bláa liðið sigraði. Eftir Laugaleikana var svo haldið sundlaugapartý og að lokum hittumst við öll í matsalnum þar sem sigurliðið fékk dýrindis ávaxtakörfu í verðlaun.
Þessi vika var mjög skemmtileg og við kynntumst fullt af skemmtilegum krökkum. Það sem kom okkur kannski mest á óvart var að við söknuðum símans ekki mikið. Í raun höfðum við engan tíma til að vera í honum þar sem við vorum of upptekin að hafa gaman. Við viljum þakka Grunnskóla Snæfellsbæjar kærlega fyrir okkur.