top of page

Niðurstöður


Á hverju hausti taka nemendur Grunnskólans könnun er snýr að einelti. Könnun þessi er yfirgripsmikil og spannar 47 spurningar sem notaðar eru til þess að „sigta út“ þá einstaklinga sem telja sig verða fyrir einelti. Niðurstöðurnar nú eru svipaðar og síðustu ár þó greina megi örlitla aukningu í ýmiss konar samskiptavanda í ár en slíkur vandi var í sögulegu lágmarki hjá okkur í fyrra. Í ár eru fjórir nemendur í tveimur bekkjardeildum sem kvarta undan samnemendum sínum. Þrátt fyrir að könnunin sé nafnlaus þá sjáum við í hvaða bekkjum þessir nemendur eru og er ferlið okkar þannig að umsjónarkennari byrjar strax ákveðna vinnu með bekknum sem kemur öllum nemendum til góða. Töluverð aukning er á því hversu vel nemendum líkar í skólanum en 87,5% þeirra líkar vel eða mjög vel í G.Snb. sem er aukning um 7% frá fyrra ári. Við sjáum líka, því miður, fjölgun einstaklinga sem eru tilbúnir að leggja aðra nemendur í einelti líki þeim ekki við þá, og þykir okkur það afar leitt. Annað sem stakk okkur er hve mikið nemendur kvarta undan útilokun, lygum og yrtu einelti og er aukning í þessum þáttum sérstaklega hjá strákahópnum. Spurning er hvort þetta tengist aukinni notkun samfélagsmiðla? En hvað er einelti? Skilgreining á einelti er orðuð á mismunandi hátt en innihaldið er það sama. Einelti er þegar einstaklingur verður fyrir síendurteknum neikvæðum verknaði eins eða fleiri aðila yfir ákveðið tímabil. Einelti getur verið bæði líkamlegt og andlegt áreiti. Það hefur sýnt sig margoft að bestur árangur í vinnu gegn einelti og samskipavanda nemenda næst þegar gott samstarf er á milli heimila og skóla enda gegna foreldrar lykilhlutverki er kemur að þroska og mótun barna þeirra. Að mæta á viðburði sem tengjast þínu barni í skólanum sýnir að þér er ekki sama.

Olweusarteymi Grunnskóla Snæfellsbæjar

​Nýjar fréttir
Eldri fréttir
bottom of page