top of page

Gestkvæmt í skólanum


Það var gestkvæmt í Grunnskóla Snæfellsbæjar fimmtudaginn 8. nóvember síðastliðinn og því mikið uppbrot á deginum hjá öllum nemendum. Dagurinn hófst á því að allir nemendur skólans hittust í Félagsheimilinu Klifi til að hlýða á tónleika sem voru á vegum verkefnisins „List fyrir alla”. Að þessu sinni var boðið upp á „Músík og sögur” þar sem þau Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari, Páll Eyjólfsson gítarleikari og Esther Talia Casey leikkona fluttu nemendum sögur og tónlist víðsvegar að úr heiminum í um það bil hálftíma dagskrá. Náðu tónlistarmennirnir mjög vel til nemenda og höfðu á orði að þau hefðu upplifað mjög góða stemmningu hjá nemendum.

Þegar tónleikadagskránni lauk og nemendur voru komnir aftur í skólann tók 10. bekkur á móti Þorgrími Þráinssyni, en hann heimsækir skólann reglulega. Að þessu sinni var hann með fyrirlesturinn sinn “Verum ástfangin af lífinu” og náði hann vel til 10.bekkinga. Eftir hádegishlé var Þorgrímur svo með “Skapandi skrif” fyrir nemendur í 8. til 10. bekk. Gekk það einnig mjög vel og nemendur mjög áhugasamir.

8. nóvember er helgaður baráttunni gegn einelti og GSNB tók að sjálfsögðu þátt í því. Á hverju ári er eitthvað gert í tilefni af deginum og hafa nemendur undanfarin ár útbúið plaköt sem þau gengu með og dreifðu í fyrirtæki í bænum, útbúið hjörtu sem þau skrifuðu falleg orð á og hengdu á öll hús bæjarins. Hefur þetta mælst vel fyrir í bæjarfélaginu. Að þessu sinni föðmuðu nemendur og starfsfók skólann sinn með því að búa til keðju utan um hann, eldri nemendur í Ólafsvík og yngri nemendur á Hellissandi.

​Nýjar fréttir
Eldri fréttir
bottom of page