Sjálfsmat
Tilgangurinn með sjálfsmati skóla er fyrst og fremst að vera umbótamiðað, þ.e. greina stöðuna, finna hvað vel er gert og hvað má betur fara, vinna áætlun um úrbætur og hrinda henni í framkvæmd.
Skólar geta valið hvaða aðferðum þeir beita í sjálfsmatsvinnunni. Ákveðin viðmið, sem skólum er ætlað að uppfylla í sjálfsmatsvinnunni, eru gefin út á vegum ráðuneytisins svo og leiðbeiningar um sjálfsmat. Til að mat teljist uppfylla viðmið laga þarf það að vera formlegt, altækt, áreiðanlegt, samstarfsmiðað, umbótamiðað, árangursmiðað, stofnana- og einstaklingsmiðað, lýsandi, greinandi og opinbert.
Sjálfsmatsskýrslan sem nú lítur dagsins ljós er önnur í röðinni sem byggð er á líkani sem Mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga gáfu út árið 2012. Líkanið er kynnt í bæklingnum Viðmið um gæði í skólastarfi fyrir ytra mat á grunnskólum.
Í heildina má segja að niðurstöður matsins séu jákvæðar fyrir skólann. Af tíu þáttum sem voru metnir komu fjórir mjög vel út þar sem meðaltalið var yfir fjórum, og flestir eða allir undirþættir þeirra þátta sterkir. Telst það mjög gott verklag sem samræmist fyllilega lýsingu á gæðastarfi. Hinir sex þættirnir hafa fleiri styrkleika en veikleika. Það telst gott verklag og flestir þættir í samræmi við lýsingu á gæðastarfi.
Skólinn getur vel við unað en alltaf má gera betur og gera gott starf enn betra. Fram koma þættir þar sem hægt er að gera enn betur og er þeirra getið í umbótaáætluninni.
Sjálfsmatsskýrlsuna er hægt að nálgast á heimasíðu skólans.