top of page

Bókaveisla 10. bekkjar


Hin árlega Bókaveisla 10. bekkjar fór fram á Klifi 6. desember síðastliðinn. Þetta er í 15. sinn sem grunnskólanemendur standa að kynningu á rithöfundum Bókaveislunnar, en hátíðin var í fyrsta skipti haldin árið 2002 og þá að frumkvæði Framfararfélags Ólafsvíkur. Frá upphafi hefur sú hefð haldist að bjóða rithöfundum í súpu með nemendum áður en farið er inn á Klif.

Rithöfundarnir Einar Már Guðmundsson, Gunnar Theodór Eggertsson, Kristín Ómarsdóttir, Jón Kalman Stefánsson og Vilborg Davíðsdóttir kynntu og lásu upp úr nýútkomnum bókum sínum . 10. bekkingar sömdu og fluttu kynningar á höfundunum og seldu veitingar í hléi með aðstoð foreldra sinna, til fjáröflunar fyrir útskriftarferðina sína. Birgitta Sveinsdóttir nemandi í 10. bekk og Tónlistarskóla Snæfellsbæjar söng tvö jólalög í hléi við undirleik Valentinu Kay sem átti vel við á aðventunni.

Bókaveislan er í dag og hefur verið undanfarin ár, eitt af átthagafræðiverkefnum 10. bekkjar þar sem áhersla er lögð á að tengja saman skólann og samfélagið, en verkefnið er styrkt af Snæfellsbæ.

Það var gaman að sjá hvað nemendur okkar skiluðu verkefninu vel frá sér og voru prúðir í alla staði. Þá var ánægjulegt að sjá hve margir mættu til að njóta kvöldsins með okkur.

Þess má geta að Bókaveislan verður á dagskrá útvarps GSNB á FM103,5 næstkomandi miðvikudagskvöld.

Við látum fylgja með ummæli frá Einari Má Guðmundssyni sem hann sendi okkur eftir Bókaveisluna:

,,Þakka fyrir frábært kvöld, þetta var stórkostlegt og nemendurnir báru samfélaginu og skólanum gott vitni“.

​Nýjar fréttir
Eldri fréttir
bottom of page