top of page

Skemmtilegur gestur í Grunnskóla Snæfellsbæjar


Dagana 20.-22. nóvember fengum við góðan gest í heimsókn í grunnskólann. Rithöfundurinn, fyrirlesarinn og fyrrum nemandi skólans, Þorgrímur Þráinsson, heimsótti alla bekki á Hellissandi, í Ólafsvík og á Lýsuhóli.

Megintilgangur heimsóknarinnar var að kynna fyrir nemendum hvernig við byggjum upp sögur og frásagnir. Þorgrímur lagði áherslu á að hver og einn skrifaði út frá sínu hjarta og leyfði frásagnargleðinni að njóta sín. Nemendur á miðstigi fengu fjölbreytt ritunarverkefni til að vinna að, Þorgrímur las síðan yfir og gaf þeim góð ráð. Það var gaman að sjá hve margir voru tilbúnir til að lesa upp ritverk sín fyrir bekkjarfélagana. Þá las Þorgrímur úr bókum sínum, tengdi sögurnar við staðhætti á Snæfellsnesi og sagði frá því hvernig hann valdi sögusvið og persónur sagnanna. Skilaboð Þorgríms til nemenda voru að lesa meira til þess að auka orðaforða, sjálfstæði, námsárangur og víðsýni, það væri gott veganesti til framtíðar.

Þorgrímur hélt fyrirlestur sem ber yfirskriftina „Vertu ástfanginn af lífinu“ fyrir nemendur 10. bekkjar og nemendur í 5., 6. og 7. bekk fengu fyrirlestur sem ber yfirskriftina „Vertu hetjan í þínu lífi“. Þorgrímur náði vel til nemenda en hann lagði áherslu á mikilvægi þess að við berum ábyrgð á okkar lífi og það að hafa góða sjálfsmynd og setja sér markmið sé vísir að árangri.

Við fundum glöggt á Þorgrími að honum þótti vænt um að koma á sínar gömlu heimaslóðir og verja tíma með jákvæðum og duglegum nemendum í Grunnskóla Snæfellsbæjar. Þökkum við honum kærlega fyrir komuna og frábært innlegg inn í skólastarfið.

EndFragment

​Nýjar fréttir
Eldri fréttir
bottom of page