top of page

Átthagafræðiþema

Átthagafræðiþema var dagana 24. og 25. janúar í Grunnskóla Snæfellsbæjar, Ólafsvík. Nemendur á miðstigi og unglingastigi unnu að verkefnum samkvæmt námskrá í átthagafræði við skólann.

Í 5. bekk unnu nemendur verkefni um vitana sem eru við strendur Snæfellsbæjar. Byrjað var á því að ræða almennt um vita, tilgang þeirra og sögu. Nemendur unnu í litlum hópum að gerð veggspjalda með upplýsingum um hvern vita ásamt mynd. Auk þess útbjuggu þeir stórt kort af Snæfellsnesi sem vitarnir voru merktir inn á. Að lokum völdu nemendur sér vita sem þeir máluðu á blindramma svo núna prýða glæsileg málverk eftir þau skólann.

Nemendur í 6. bekk unnu verkefni um Snæfellsjökul þeir byrjuðu á því að horfa á myndina Journey to the center of the eart. Eftir það unnu þeir rafbók með upplýsingum um jökulinn. Þar kemur m.a. fram stærð hans, hvernig hann tengist listum, hvaða áhrif hann hefur fyrir bæjarfélagið, þjóðsögur sem tengjast jöklinum o.fl. ​

Nemendur í 7. bekk unnu verkefni um Fróðárundrin. Þeim var skipt í fjóra hópa og unnu nemendur leikþætti upp úr sögunni um Fróðárundrin. Hóparnir völdu sér búninga sem hæfðu hverju atriði og í lokin léku þau fyrir hvort annað.

Í 8. bekk unnu nemendur verkefni um hafnirnar í Snæfellsbæ. Í upphafi fengu þeir kynningu á höfnunum og voru þeim sýndar myndir, bæði gamlar og nýjar. Að því búnu fóru nemendur í vettvangsferð á höfnina á Rifi þar sem hafnarstjóri kynnti hafnir bæjarins fyrir þeim og nemendur spurðu spurninga sem þeir höfðu undirbúið. Seinni daginn var unnið úr upplýsingum og útbúin verkefni, t.d. veggspjöld og kynning.

Nemendur í 9. bekk kynntu sér valda þætti í jarðfræði Snæfellsbæjar með áherslu á Þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Þeir unnu í litlum hópum kynningarefni sem unnið var með forriti inni á vefsíðunni Thinglink.com. Afrakstur þeirrar vinnu verður síðar birtur á heimasíðu skólans.

10. bekkur vann verkefni um byggðaþróun í Snæfellsbæ og hvernig fólksfjöldi hefur breyst. Nemendur skoðuðu helstu byggðarkjarna innan sveitafélagsins, hvar byggð hafi myndast fyrst og þróun byggðar. Rýnt var í sveiflur á íbúafjölda og hugsanlega ástæður fyrir því að fólksfjöldi jókst til að mynda hratt á Rifi. Nemendur notuðu vef Hagstofu Íslands til heimildaöflunar ásamt bókum sem hafa einhverja sögu að geyma um tímann frá 1889 til dagsins í dag. Útbúið var kort af Snæfellsnesi, tölfræðilegar upplýsingar voru settar í myndrit og að lokum var skrifuð stutt kynning um byggðarkjarnana í Snæfellsbæ fyrr og nú.

​Nýjar fréttir
Eldri fréttir
bottom of page