top of page

Árleg skíðaferð 10. bekkjar varð að veruleika þetta árið

Búið var að skipuleggja hina árlegu tveggja daga skíðaferð 10. bekkjar í Bláfjöll og átti að fara mánudaginn 31. janúar síðastliðinn. Beðið var með eftirvæntingu en veðurguðirnir brugðust okkur og voru nemendur mjög leiðir. Við vorum ekki af baki dottin og farið var á fullt í að hafa samband við Breiðablik, forsvarsmenn Bláfjalla og Hafþór bílstjóra til að athuga hvort við gætum seinkað ferðinni um einn dag því spáin var góð fyrir þriðjudag og miðvikudag. Allt gekk upp og fórum við af stað með 13 spennta unglinga á þriðjudagsmorgni kl. 8:30 í Bláfjöll. Strax við komuna í Bláfjöll var byrjað á því að koma sér fyrir í skálanum og þustum við svo niður í skíðaleigu til að ná okkur í búnað því við vildum nýta hverja mínútu í brekkunum. Allir voru orðnir klárir klukkan rúmlega tvö og skíðuðu nemendur allan daginn fram að lokun sem var klukkan níu um kvöldið. Tíminn í fjöllunum var nýttur vel og á morgni miðvikudags voru nemendur komnir út í brekkurnar klukkan rúmlega tíu og tóku vel á því, skíðuðu til að verða þrjú því áætluð brottför heim var kl. 15:30. Allmargir nemendur höfðu ekki farið á skíði áður en voru fljótir að ná tökum á íþróttinni og er óhætt að segja að flestir hafi komið þreyttir heim og reynslunni ríkari eftir vel heppnaða skíðaferð. Nemendaráð skólans og 10. bekkur leggja mikla vinnu á sig til að fjármagna svona ferð sem er nemendum að kostnaðarlausu. Er það gert með því að safna auglýsingum og kveðjum, útsetja þær og flytja svo í Jólaútvarpi Grunnskóla Snæfellsbæjar.

Nemendaráð og nemendur 10. bekkjar þakka fyrirtækjum á Snæfellsnesi og víðar fyrir að auglýsa og senda jólakveðjur í Jólaútvarpinu og gera þeim þannig kleift að fara í svona ferð.


Svandís Jóna Sigurðardóttir, umsjólnarkennari í 10. bekk og félagsmálastjóriコメント


​Nýjar fréttir
Eldri fréttir
bottom of page