Áherslur í skólastarfinu
Á þessu skólaári leggjum við áherslu á að efla skólabraginn hjá okkur með því að vinna með einkunnarorð skólans en þau eru sjálfstæði, metnaður og samkennd. Það munum við gera með aðstoð KVAN en starfsfólk mun sitja námskeið undir yfirskriftinni Verkfærakistan allt þetta skólaár. Markmið námskeiðsins er að veita þátttakendum verkfæri til að stuðla að bættum bekkjaranda, styrkingu hópa, auka samkennd og samvinnu, bæta félags-, vináttu- og leiðtogafærni og aðferðir til að aðstoða börn í félagslegum vanda. Þannig má vinna gegn einelti og annarri neikvæðri hegðun, ásamt því að bæta líðan og farsæld barnanna í skólanum. Að loknu námskeiðinu ættu þátttakendur að hafa öðlast verkfæri til að bera kennsl á og vinna með einstaklinga sem eiga í félagslegum vanda annars vegar og hópa sem glíma við samskiptavanda hins vegar.
Síðustu skólaár höfum við lagt áherslu á að efla læsi og málþroska nemenda með innleiðingu á verkefnum eins og Læsisfimmunni og Orð af orði (orðaforði). Eins höfum við verið að vinna að málstefnu fyrir skólasamfélagið okkar. Við munum halda þessari vinnu áfram og stefnum á að ljúka við málstefnuna á þessu ári, í góðu samráði við skólasamfélagið.
Samhliða þessum áherslum munum við halda áfram með þau verkefni sem við höfum verið að vinna að, s.s. átthagafræði, grænfána og Olweus.
Comments