Jafnrétti

Markmið jafnréttismenntunar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings,  friðar, umburðarlyndis, víðsýni og jafnréttis. Í skólastarfi skulu allir taka virkan þátt í að skapa samfélag jafnréttis og réttlætis. Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra. Jafnréttismenntun vísar í senn til inntaks kennslu, námsaðferða og  námsumhverfis. Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær til margra þátta. Hér á eftir er upptalning  nokkurra þeirra í stafrófsröð: Aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni, þjóðerni. Á öllum skólastigum á að fara fram menntun til jafnréttis þar sem fjallað er um hvernig ofangreindir þættir geta skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks.

Þættir sem unnið er með nú þegar og þarf að auka og styrkja:

 • Þekking nemenda á mismunandi aðstæðum einstaklinga í samfélaginu og heiminum verði aukin.

 • Skólinn og kennarar séu fyrirmyndir í því að gefa öllum sömu tækifæri og geri nemendum ljóst að það á að vera sjálfgefið að allir fái sömu tækifæri.

 • Kennarar gæti þess að hver og einn sé metinn á sínum forsendum og geri nemendur meðvitaða um það.

 • Í starfskynningum sé lögð áhersla á að bæði kynin hafi jafna möguleika í öll störf.

 • Nemendur fái tækifæri á öllum stigum til að kynnast aðstæðum barna sem koma frá annarri menningu en þeir þekkja sjálfir. Nemendur læri um þeirra siði, trúarbrögð, menningu og fái þannig forsendur til að setja sig í spor annarra. Hægt er að vinna með E- twinning í þessu samhengi.

 • Öll erlend börn hafi jafnan rétt á túlki þegar á þarf að halda t.d. í viðtölum.

 • Stuðlað verði að markvissri fræðslu um jafnréttismál á öllum skólastigum og fræðslan byrji strax á yngsta stiginu t.d. með umræðu um að enginn er eins. Á miðstigi má fara í efni sem fjallar um það að við breytumst á lífsleiðinni og á unglingastigi lögð áhersla á að virðum aðra eins og þeir eru.

 • Skipulögð verði þemaverkefni við hæfi hvers stigs fyrir sig með ólíkum verkefnum um eftirfarandi þætti: Aldur, fötlun, kynhneigð, litarhátt, trúarbrögð, stétt, lífsskoðanir og búsetu.

 • Nemendur fái námsefni við sitt hæfi og fjölbreyttar kennslu- og námsaðferðir.

 • Nemendur þjálfist í sjálfstæðum vinnubrögðum og efnistökum með því að vinna verkefni út frá eigin hugðarefni, áhugamáli eða hæfileikum.

Þættir sem við erum nýlega byrjuð á eða erum að hefja vinnu við:

 • Sett verði upp þema um skilgreiningu á jafnrétti.

 • Skipulagðir verði fjölmenningardagar til að gefa öllum tækifæri til að kynnast menningu innflytjenda sem búa hér og þekking dregur úr fordómum.

Grunnskóli Snæfellsbæjar

Ennisbraut 11 | 355 Snæfellsbæ

Sími: 4339900 

Opnunartímar:

Hellissandur kl. 7:50 - 16:00

Ólafsvík kl. 7:45 - 16:00

 • Twitter Social Icon
 • Facebook Social Icon
 • YouTube Social Icon