Heilbrigði og velferð

Heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Það ræðst af flóknu samspili einstaklings, aðstæðna og umhverfis. Allt skólastarf þarf að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan enda verja börn og ungmenni stórum hluta dagsins í skóla. Í skólum þarf að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem  markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum. Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru: jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra.

Þættir sem unnið er með nú þegar og þarf að auka og styrkja:

 • Heilsuefling sé nýtt sem þema og búnir til „heilsudagar“ þar sem áhersla er á hreyfingu, hollt mataræði og almennt hreinlæti.

 • Starfsfólk haldi áfram að vinna með  Olweusaráætlun sem eykur og viðheldur jákvæðum skólaanda.

 • Nemendum verði boðið upp á valáfanga í líkingu við skólahreysti og gæti verið í samvinnu við líkamsræktarstöð eða ungmennafélög.

 • Nemendur fái krefjandi verkefni sem bæta sjálfsmynd og auka áhuga á námi.

 • Skólahjúkrunarfræðingur annist kynfræðslu, fræðslu um hreinlæti, tannheilsu, forvarnir og fleira tengt heilbrigði og velferð barna og unglinga.  Nemendum getur veist auðveldara að spyrja utanaðkomandi um heilbrigðismál.

 • Kennarar og nemendur haldi áfram að fara í hefðbundnar ferðir s.s. í nemendabúðir að Reykjum í 7. bekk, Laugum í 9. bekk og taki þátt í Skólahreysti sem er allt hluti af því að halda skólabrag.

 • Kennarar verði meðvitaðri um það hvernig hægt er að fá aðstoð frá sálfræðingi eða félagsráðgjafa og upplýsingastreymi um það verði gott frá stjórnendum til kennara og foreldra.

 • Hafa skal söng á sal sem eykur gleði og vellíðan meðal nemenda, þar sem söngur er heilsubót.

 • Vinna með sjálfstraust nemandans með því að leggja áherslu á fjölbreytt verkefni sem þjálfa nemendur í að koma fram, segja sína skoðun, útskýra verkefni og draga saman niðurstöður.

Þættir sem við erum nýlega byrjuð á eða erum að hefja vinnu við:

 • Til eflingar skólaandans skal stefnt að því að öll skólastig hittist einu sinni á ári í einhvers konar leikjum þar sem öllum bekkjum er blandað saman t.d. í ratleik með aldursblöndun.

 • Nemendur fái leiklist frá 1. – 10. bekk til að efla þeirra frumkvæði, sjálfsöryggi, sjálfstæði og framsögn.

 • Nemendur fái þjálfun í félagsfærni.

Grunnskóli Snæfellsbæjar

Ennisbraut 11 | 355 Snæfellsbæ

Sími: 4339900 

Opnunartímar:

Hellissandur kl. 7:50 - 16:00

Ólafsvík kl. 7:45 - 16:00

 • Twitter Social Icon
 • Facebook Social Icon
 • YouTube Social Icon