IMG_0352.JPG

Skólareglur

 

Skólareglur Grunnskóla Snæfellsbæjar byggja á fyrirliggjandi greinum í grunnskólalögum nr. 91/2008 en þar segir í  14. grein.

„Nemendur bera ábyrgð á eigin námi og framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska.  Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin“

Jafnframt segir í reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskóla (nr. 1040/2011)

4. grein: Nemendur:
 

Nemendur skulu sækja grunnskóla nema veikindi eða önnur forföll hamli.

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni, háttsemi og samskiptum við skólasystkin og starfsfólk skóla, þ.m.t. rafrænum samskiptum og netnotkun með hliðsjón af aldri og þroska.

Nemendur eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í málum sem þá varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.

Nemanda skal gefinn kostur á að tjá sig ef fundið er að hegðun hans vegna brota á skólareglum.

Skólareglur Grunnskóla Snæfellsbæjar gilda hvar sem nemendur og starfsmenn eru á vegum skólans.  Þær byggja á því grundvallarsjónarmiði að nemendur séu komnir í skólann til þess að læra í friði, sátt og samlyndi við aðra.

Minnt er á að vellíðan í skólanum er á ábyrgð allra sem að starfinu koma, jafnt starfsmanna, nemenda sem og forráðamanna þeirra.

 

Skólareglur einar og sér geta aldrei orðið marktækar.  Til að skólareglur stuðli að vellíðan skiptir miklu máli að hlutverk hvers og eins séu skýr og fylgi framangreindu markmiði.

Kennarar, starfsmenn og nemendur eru þeir sem sinna daglegum störfum í Grunnskóla Snæfellsbæjar og því eru þau hlutverk sem þeir spila sérstaklega tilgreind hér, áður en kemur að skólareglunum sjálfum.

Hlutverkin eiga að vera sýnileg öllum sem vinna á vinnustaðnum, sem og skólareglur.

 

Hlutverk kennara og starfsmanna:

 • að stuðla að þægilegu starfsumhverfi sem leiðir til öryggis og vellíðunar í skólastarfi

 • að leiðbeina nemendum eftir bestu getu

 • að aðstoða nemendur við að afla sér þekkingar

 • að koma með ábendingar um mætingar nemenda í samræmi við reglur um skólasókn

 • að koma með ábendingar um hegðun nemenda, jákvæðar sem neikvæðar

 • að hafa ávallt í huga mismunandi getu, þarfir og aðstæður nemenda, sjá til þess að þeir fái verkefni við hæfi

 • að veita nemendum tækifæri til að þroska og nýta hæfileika sína

 • að eiga samvinnu við nemendur og forráðamenn þeirra um farsæla skólagöngu

 • að stuðla að jákvæðum skólabrag þar sem einelti þrífst ekki

 • að framfylgja reglum skólans

 • að koma fram af virðingu

 • að gæta jafnréttis

 • að stuðla að jákvæðri ímynd skólans út á við

 

Hlutverk nemenda:

 • að fylgja og virða reglur skólans

 • að stuðla að jákvæðum skólabrag þar sem einelti þrífst ekki

 • að fylgja því námsefni sem fyrir þá er lagt

 • að tileinka sér góð vinnubrögð

 • að koma fram við aðra eins og þeir vilja að komið sé fram við þá

 • að fylgja fyrirmælum kennara og starfsfólks

 • að koma vel undirbúnir til starfa

 • að stuðla að góðum starfs- og vinnuanda

 • að hlusta á og virða sjónarmið annarra nemenda og starfsfólks

 • að sýna tillitsemi og umburðarlyndi

 • að vera ábyrgir gagnvart eigin námi

 • að láta vita ef illa gengur eða ef vanlíðan gerir vart við sig

 • að læra eftir bestu getu
   

Skólareglur:

 • við erum stundvís og mætum með viðeigandi gögn í skólann

 • við sýnum kurteisi og tillitsemi

 • við fylgjum þeim reglum sem eiga við í skólastarfinu

 • við tökum afstöðu gegn einelti

 • við látum vita ef okkur eða öðrum líður illa í skólanum

 • við göngum vel um eigur okkar og annarra

 • við erum á skólalóðinni á skólatíma

 • við berum virðingu fyrir umhverfisstarfi skólans

 • við geymum útifatnað í fatahengi

 • við erum einungis með gosdrykki og sætindi þegar skólinn gefur sérstakt leyfi fyrir því

 

Skólasóknarkerfi er í gildi á elsta stigi.
 

Öll meðferð og notkun tóbaks og vímuefna er óleyfileg.

Tölvunotkun nemenda er háð sérstöku leyfi með vísan í reglur um notkun.

Farsímar nemenda í 1.-7. bekk skulu vera í skólatöskum á skólatíma en notkun farsíma er leyfð í frímínútum og í eyðum nemenda í 8.-10. bekk.

 Allar hljóð- og myndatökur eru óheimilar nema með sérstöku leyfi kennara.

 • Minnt er á að nemendur eru alltaf ábyrgir fyrir eigum sínum sem þeir koma með í skólann.
   

Sértækar reglur eru á ákveðnum svæðum í skólahúsnæðinu eða tengdar starfsemi skólans.  Reglur þessar eiga að vera sýnilegar á umræddum svæðum. Þær eru t.a.m. þessar:

 • Reglur í skólabifreið og á biðstöðvum.

 • Reglur í matsal.

 • Reglur í vettvangsferðum.

 • Bekkjarreglur.

 • Stofureglur í sérgreinastofum.

 • Reglur í íþróttahúsum og sundlaug.

 

Starfsfólki, nemendum og forráðamönnum er bent á að kynna sér viðkomandi reglur sem hægt er að nálgast hjá skólaritara.